Túlkun jafnréttislaga og skipun í embætti hæstaréttardómara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:55:34 (1090)

2000-11-01 14:55:34# 126. lþ. 18.7 fundur 33. mál: #A túlkun jafnréttislaga og skipun í embætti hæstaréttardómara# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra reyna að koma sér hjá að svara beint þeim spurningum sem til hans er beint og sé í raun á svolitlum flótta í málinu og mér finnst það svo sem ekkert skrýtið þegar svo ljóslega er brotið gegn jafnréttislögum. Um það er spurt í fyrstu spurningunni og ég spyr ráðherrann beint: Er hann sammála því að jafnréttislög hafi verið brotin við þessa ráðningu, gengið gegn jafnréttisáætlun, jafnréttislögum og jafnréttissamþykktum? Ég spyr ráðherrann beint um það vegna þess að hann hlýtur að hafa kynnt sér þetta mál.

Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu sagði orðrétt --- og er ég hér með útskrift frá Ríkisútvarpinu 6. september og ég vitna til þess, með leyfi forseta:

,,Framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu álítur að Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra hafi gengið gegn jafnréttislögum og jafnréttisáætlun eigin ráðuneytis þegar hún mælti með Árna Kolbeinssyni í stöðu hæstaréttardómara.``

Varðandi það að ráðherra telji sig ekki geta upplýst um hvaða afstöðu hann hafði á ríkisstjórnarfundi þegar hæstv. dómsmrh. kynnti sín áform, þá er það mjög sérstakt, þ.e. að ráðherrann beitir því fyrir sig að það sé trúnaðarmál sem fram fari á ríkisstjórnarfundum. Út af fyrir sig er það rétt. En ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er það sem bannar ráðherra að greina frá þeirri skoðun sem hann hefur haft í þessu máli á ríkisstjórnarfundi? Ég hef verið ráðherra og ég kannast ekki við það að manni sé meinað að segja frá þeirri skoðun sem maður hefur haft á einstaka málum í ríkisstjórn. Það er alveg ný túlkun fyrir mig. Ýmislegt sem fram fer á ríkisstjórnarfundi á auðvitað að vera trúnaðarmál. En varla getur sú skoðun sem ráðherrann hefur haft á þessu máli átt að vera trúnaðarmál. Ég lít svo á að á meðan ráðherrann vill halda málinu með þeim hætti þá hafi hann ekki gert athugasemd við þau makalausu áform hæstv. dómsmrh. sem hún kynnti á ríkisstjórnarfundi, að láta karl fá þessa stöðu hæstaréttardómara en ganga fram hjá þremur hæfum konum með dómarareynslu við þessa stöðuveitingu.