Móttaka flóttamanna frá Júgóslavíu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:00:05 (1092)

2000-11-01 15:00:05# 126. lþ. 18.8 fundur 112. mál: #A móttaka flóttamanna frá Júgóslavíu# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um móttöku flóttamanna frá fyrrverandi Júgóslavíu. Tilefni þess er að í fréttabréfi félmrn. frá því í júlí sl. kemur fram eftirfarandi frétt:

,,Ríkisstjórn Íslands ákvað að tillögu félagsmálaráðherra að taka á móti flóttamönnum frá fyrrum Júgóslavíu árið 2000 líkt og gert hefur verið síðastliðin fimm ár en fyrsti hópurinn kom til landsins árið 1995. Flóttamannaráð Íslands er ráðherra til ráðuneytis um hvernig standa skuli að móttöku flóttamannanna ár hvert en við val á flóttamönnum hefur ráðið notið aðstoðar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) um hvaða hópar skulu koma til landsins í hvert og eitt skipti. Í framhaldi af þessu er auglýst eftir umsóknum sveitarfélaga og við val á sveitarfélagi eru margir þættir metnir en einna þyngst vega eftirfarandi þættir: staða félagsþjónustu, heilbrigðisþjónusta, atvinnuástand, skólamál og framboð á húsnæði.``

Í framhaldi af þessu, virðulegi forseti, hef ég leyft mér að leggja fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. félmrh.:

1. Hve margir flóttamenn hafa komið til landsins frá fyrrverandi Júgóslavíu sl. fimm ár?

2. Hvaða sveitarfélög hafa tekið á móti flóttafólkinu og hve margir fóru á hvern stað?

3. Hve margir hafa flutt frá upphaflegum aðsetursstað til höfuðborgarsvæðisins?

4. Hve margir hafa flust búferlum frá Íslandi aftur?