Ný stétt vinnukvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:21:15 (1101)

2000-11-01 15:21:15# 126. lþ. 18.9 fundur 126. mál: #A ný stétt vinnukvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Ég gleymdi því áðan, herra forseti, að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli því að það er sannarlega ástæða til þess að ræða málefni útlendinga sem hingað koma og vinna. Við þurfum að taka okkur sjálfum tak og reyna að gera betur en við höfum gert til þess að aðlaga þá að íslensku samfélagi, þ.e. þá þeirra sem ákveðnir eru í að setjast hér að. Tölur sýna að af þeim sem fengu atvinnuleyfi fyrir fjórum árum, tímabundið atvinnuleyfi fyrir fjórum árum, eru 40% hér enn þá. Fleira fróðlegt sem ég get upplýst er að 8% af konum á Íslandi milli tvítugs og þrítugs eru erlendar. Það eru þessar konur sem eru að eiga börnin og það eru þessar konur sem eru að framleiða stóran hluta af Íslendingum framtíðarinnar.

Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af þeim konum sem eru með atvinnuleyfi. Þetta er ekki stór hópur og þeirra réttarstaða er nokkuð trygg eins og annarra sem koma með atvinnuleyfi. Ég hef hins vegar grun um að hér séu miklu fleiri konur sem komi sem gestir og sæki ekki um atvinnuleyfi, komi hér í skjóli ættingja í heimsókn og slái sér síðan kannski til rólegheita. Og við höfum ekki neina stjórn á því hvernig þeim líður eða við hvaða kjör þær búa. En þetta eru konur sem eru vistráðnar á einkaheimili og hafa um það samning sem er trygging þeirra að réttar þeirra sé sæmilega gætt.