Mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:51:47 (1112)

2000-11-01 15:51:47# 126. lþ. 18.12 fundur 35. mál: #A mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:51]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að fram fari sjálfstætt mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls, þ.e. svæðinu kringum Snæfell með Eyjabökkum og Vesturöræfum í þeim tilgangi að geta borið saman áhrif ólíkra nýtingarmöguleika svæðisins.

Því er til að svara að í lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, er annars vegar kveðið á um matsskyldar framkvæmdir, sbr. 5. gr. laganna, og hins vegar framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. laganna. Í fyrra tilvikinu eru taldar upp þær framkvæmdir sem skilyrðislaust skal meta en í síðara tilvikinu er um að ræða framkvæmdir sem skal tilkynna til Skipulagsstofnunar sem ákveður hvort framkvæmdin skuli metin með hliðsjón af forsendum sem taldar eru upp í III. viðauka með lögunum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar er kæranleg til umhvrh. í báðum tilvikum.

Það er því ekki hlutverk umhvrh. samkvæmt lögunum að beita sér fyrir því að sjálfstætt mat fari fram á umhverfisáhrifum, hvorki þjóðgarða né annarra framkvæmda eða rekstri sem þeim fylgir. Samkvæmt lögum sem og reglugerð nr. 671/2000, um mat á umhverfisáhrifum, eru þjóðgarðar sem slíkir hvorki mats- né tilkynningarskyldir en lögin taka mið af einstökum framkvæmdum og áhrifum þeirra, sem og reksturs sem þeim fylgir, á umhverfið.

Hitt er annað mál að þess hefur verið farið á leit við verkefnastjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðorku að hún kanni hvort og þá hvernig unnt sé að taka á yfirlýsingu níu náttúru- og umhverfisverndarsamtaka frá því í lok júnímánaðar í tenglsum við mat á þjóðgarði á svæðinu norðan Vatnajökuls. Verkefnisstjórn rammaáætlunar fékk bréf frá hæstv. iðnrh. sem sendi það í kjölfar bréfs frá þeirri er hér stendur sem var sent eftir að haldinn var fundur með þessum náttúruverndarsamtökum til að reyna að skoða hvort þetta væri hægt.

Á fundi verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar sem haldinn var 22. sept. sl. var fjórum aðilum úr verkefnisstjórn fengið það hlutverk að gera tillögu um hvernig hægt væri að koma til móts við óskir þessara samtaka --- óskir þeirra eru mjög samhljóma óskum vinstri grænna --- þannig að niðurstöður gætu legið fyrir um svipað leyti og mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, sem væntanlega munu liggja fyrir í marsmánuði nk.

Málið var tekið til afgreiðslu á fundi 27. okt. og samþykkti stjórnin að taka verkið að sér sem sérverkefni. Í kjölfar þess að verkefnisstjórnin samþykkti að taka að sér þetta verkefni var bréf sent til iðnrh. þar sem falast var eftir því að fá viðbrögð ráðuneytisins um hvort það teldi æskilegt að fara í verkefnið með þeim hætti sem verkefnisstjórnin telur að hægt sé að vinna það.

Nú er staðan þannig að iðnrh. fékk þetta bréf frá verkefnisstjórninni 30. okt., þ.e. í fyrradag, og er það til skoðunar í iðnrn. Á þessari stundu er því ekki nákvæmlega hægt að segja hvernig staðið verður að málinu en það er alveg ljóst að við höfum skoðað það og fulltrúar umhvrn. sem eru í verkefnisstjórninni hafa verið með í þeirri vinnu. Ég hef skoðað þau plögg sem þeir hafa notað og hafa sent til iðnrn. Við höfum fengið afrit af því. Þar kemur fram að verkefnisstjórnin sér það fyrir sér að ef vilji er til þess að fara í þetta mat --- þetta er efnahagslegt mat má segja, mat á gildi svæðisins fyrir þjóðgarð. Þetta er ekki hefðbundið umhverfismatsferli --- þá mundi sérstakur umsjónarhópur hafa með málið að segja og vinna það, fá til sín sérfróða aðila. Sá hópur sem verkefnisstjórnin sér fyrir sér að mundi halda utan um vinnuna er þannig saman settur að þar eru formenn faghópanna sem vinna núna undir rammaáætluninni auk þess sem tillaga er um það hjá verkefnisstjórninni að formaður í þessum umsjónarhópi yrði Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins.

Mér finnst því sú vinna sem hefur farið fram hjá rammaáætluninni við að skoða þetta mál vera mjög í anda þess sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræddi um í fyrirspurn sinni og kom fram í bréfi vinstri grænna til umhvrh.