Mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:58:56 (1114)

2000-11-01 15:58:56# 126. lþ. 18.12 fundur 35. mál: #A mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er rétt að verkefnisstjórn rammaáætlunar er reiðubúin að taka að sér þetta verkefni sem sérverkefni. Hins vegar er það ekki endanlega ákveðið í dag. Verkefnisstjórnin hefur sent bréfið til iðnrh. sem fer með rammaáætlunina og málið liggur þar núna. Það þarf að taka afstöðu til þess hvort fara eigi í málið eins og verkefnisstjórnin leggur til, sem ég tel að sé ágætisleið. Það er líka alveg ljóst að það þarf að útvega eitthvert fé til þess að fara í verkið. Nákvæmlega hvað það er há upphæð er mér ekki ljóst á þessari stundu. En það þarf líka að skoða það á vettvangi ráðuneyta.

[16:00]

Það hefur verið mín skoðun að eðlilegt sé að skoða alla nýtingarmöguleika, að við eigum að fara í þá vinnu með opnum huga. Hins vegar er mér ljóst að þetta er mjög erfitt mat og verður örugglega umdeilt, bæði hvernig farið verður í það og niðurstaðan verður örugglega umdeild. Það er mjög erfitt að setja krónutölu á land sem ekki er á markaði. Það eru ekki kaupendur að landinu þannig að ekki er hægt nota markaðslögmálin til þess að verðleggja þetta land. Það er því erfitt að meta þetta. Hins vegar hafa menn verið að reyna að nálgast það að meta náttúruauðæfi til verðs með ýmsum aðferðum þó að þær aðferðir séu kannski skammt á veg komnar. Þær hafa ekki verið notaðar þannig að menn hafa ekki samanburð. En þrátt fyrir að þetta sé svona flókið og verður umdeilanlegt finnst mér eðlilegt að skoða alla fleti og fara í þessa vinnu með opnum huga.

Eins og ég segi þá er ekki búið að taka endanlega ákvörðun en mér finnst mjög ánægjulegt að verkefnisstjórnin er búin að skoða þetta og telur sig vera bæra til að takast á við verkefnið.