Störf nefndar um jarðskjálftavá

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:31:29 (1115)

2000-11-01 17:31:29# 126. lþ. 18.13 fundur 109. mál: #A störf nefndar um jarðskjálftavá# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. umhvrh. spurningar um jarðskjálftavá. Tilefni þess er að 22. nóvember á síðasta ári var nokkuð rætt um þetta vegna fyrirspurnar minnar um hvaða nefndir væru starfandi vegna jarðskjálftavár og hvað liði störfum þeirra, en þær höfðu verið skipaðar nokkrum árum áður, eða í nóvember 1996.

Í svari hæstv. umhvrh. kom þá fram að þegar nefnd sú sem ég gat um áðan skilaði af sér hefði verið skipuð önnur nefnd til þess að vega og meta þær tillögur sem fram komu. Lokaorð hæstv. ráðherra voru þau að reiknað væri með að nefndin mundi ljúka störfum og skila ráðuneyti tillögum á næstu vikum. Þetta svar var gefið 22. nóvember á síðasta ári.

Nú hefur komið fram í viðtölum við marga aðila sem eru sérmenntaðir í jarðvísindum að búast megi við fleiri hörðum jarðskjálftum á Suðurlandi. Það skiptir verulegu máli hér á þéttbýlissvæðinu hvernig á verður haldið. Það skiptir miklu máli hvaða tillögur hafa verið lagðar fram eða eru í smíðum varðandi jarðskjálftavá á höfuðborgarsvæðinu. Og varðandi mat jarðeðlisfræðinga á því hvort höfuðborgin, höfuðborgarbúar og íbúar hér á þéttbýlissvæðinu séu í hættu, gangi spár þessara aðila fram, þ.e. þeirra jarðvísindamanna sem hafa mikið um þetta fjallað og verið m.a. í fjölmiðlum nokkru eftir að síðustu tveir skjálftar gengu yfir Suðurland, þá hafa þeir verið nokkuð stórorðir og sagt að ljóst væri eða reynslan kenni mönnum og segi að meiri líkur en minni séu á að allstórir jarðskjálftar gætu orðið aftur. Fólk er því í nokkurri óvissu.

Þess vegna hef ég, virðulegi forseti, leyft mér að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn:

Hvað líður störfum þeirrar nefndar sem fyrrv. umhvrh., Guðmundur Bjarnason, skipaði til að fjalla um jarðskjálftavá?

Ríkisstjórnin ákvað að skipa nýja nefnd til að leggja mat á tillögurnar og móta tillögur til ríkisstjórnarinnar um framhald málsins. Því spyr ég hæstv. umhvrh.: Hvað líður störfum þeirrar nefndar?