Störf nefndar um jarðskjálftavá

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:37:51 (1117)

2000-11-01 17:37:51# 126. lþ. 18.13 fundur 109. mál: #A störf nefndar um jarðskjálftavá# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:37]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Mér finnst þó enn skilið eftir nokkurt tómarúm í málinu eins og ég gat um áðan og vitna þá til orða þeirra jarðeðlisfræðinga sem hafa haldið því fram að við eigum von á fleiri skjálftum. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að flýta þessari vinnu.

Ég nefni sem dæmi þá deilu sem upp hefur komið um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Margir höfuðborgarbúar hafa viljað leggja hann af. Hvað þýðir það ef jarðskjálftar dyndu yfir höfuðborgina og mundu rjúfa t.d. allar samgönguleiðir út úr borginni? Og hvað þýðir það ef við þyrftum á aðstoð að halda flugleiðis og þá væri ekki um neinn annan flugvöll að ræða en Keflavíkurflugvöll, svo einhver dæmi séu nefnd? Ég geri mér alveg grein fyrir því að auðvitað verður að standa vel að verki.

Mér finnst hins vegar að það þurfi að svara borgarbúum um stöðu málsins og enn fremur þeirri fullyrðingu sem komið hefur fram hjá jarðeðlisfræðingum, að væntanlega munu upptök jarðskjálftanna færast í vesturátt frá því sem var í sumar. Og hvað þýðir það? Það þýðir að hann verður nær höfuðborginni.

Þess vegna er ég nú að vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, og tel að málið sé mjög mikilvægt og því er því hreyft hér og nú.