Átak gegn fíkniefnaneyslu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:44:41 (1120)

2000-11-01 17:44:41# 126. lþ. 18.4 fundur 38. mál: #A átak gegn fíkniefnaneyslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að gefa mér tækifæri til að svara þessari fyrirspurn hans.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. að samfélaginu ber að beita sér með öllum ráðum til að forða ungmennum frá vímuefnum og það er þess vegna sem Framsfl. ákvað að beita sér sérstaklega gegn þessum vágesti.

[17:45]

Við höfum náð árangri, þess sjást merki í grunnskólunum að baráttan er að skila sér. Við erum að ná árangri í tollgæslunni og á Keflavíkurflugvelli hefur aldrei verið tekið jafnmikið af efnum eða jafnmargir handteknir sem reyna að flytja þau inn.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki tilviljun. Þarna fer saman aukið fjármagn, betri tæki og skýrari áherslur, áherslur stjórnmálamanna, áhugafólks, félagasamtaka og þeirra einstaklinga sem hafa helgað sig þessum störfum. Það er ekki tilviljun að nú eru engir biðlistar fyrir unglinga í meðferð vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Það er árangur af markvissu starfi og auknum fjármunum og þannig viljum við vinna.

Af því hv. þm. spyr sérstaklega um hve miklu fjármagni við höfum bætt við til þessara verkefna skal ég upplýsa hann um að frá því í byrjun kjörtímabilsins hafa bæst við 832,4 millj. kr. Nákvæmlega skiptist það þannig:

Í fjáraukalögum árið 1999 var bætt við 106,4 millj. Á fjárlögum árið 2000 er 381,5 millj. kr. hærra framlag en í fjárlögum 1999. Samkvæmt frv. til fjárlaga 2001 verður fjárhæðin 344,5 millj. kr. á næsta ári, en á árinu 1999 og 2000 var keyptur ýmis búnaður og lagt í stofnkostnað sem nýtist áfram í baráttunni.

Virðulegi forseti. Þegar hafa verið lagðar 832,4 millj. kr. til þessa starfs þannig aðljóst er að hér er ekki um skammvinnt átak að ræða. Þetta eru fjármunir sem lagðir hafa verið í baráttuna gegn vímuefnum og verða þar áfram. Þessi mikla viðbót í forvarnir, meðferð, lög- og tollgæslu er árangur skýrrar stefnu og aukinnar áherslu á baráttuna gegn vímuefnum.

Vissulega erum við ekki komin á leiðarenda og betur má ef duga skal. Við sjáum að enn fjölgar þeim sem þurfa meðferð t.d. hjá SÁÁ, enda var opnuð þar ný unglingadeild um síðustu áramót þannig að enn fleiri komast í meðferð heldur en áður og auk þess komast þeir fyrr að.

Virðulegi forseti. Ég vona að þau svör sem ég hef gefið sýni að við höfum staðið við þau loforð sem við gáfum í kosningunum, bæði í þessum málum og varðandi barnabætur.