Átak gegn fíkniefnaneyslu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:49:34 (1122)

2000-11-01 17:49:34# 126. lþ. 18.4 fundur 38. mál: #A átak gegn fíkniefnaneyslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:49]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur þegar gert ágæta grein fyrir því aukna fjármagni sem bætt hefur verið til þessa málaflokks en málaflokkurinn heyrir í raun undir ein fimm ráðuneyti, ekki eingöngu undir heilbrrn. Þessar upplýsingar eru öllum aðgengilegar sem og sundurliðunin á þeim, sundurliðun á þeim fjárhæðum sem hún nefndi.

Það skiptir Framsfl. auðvitað máli að hafa sýnt fram á efndir kosningaloforðs en það sem skiptir framsóknarmenn þó mestu máli, og vonandi alla aðra sem láta þessi mál sig skipta, er árangurinn af því fjármagni sem lagt er til þeirra.

Aukinn árangur fjármagns sem veitt hefur verið til eftirspurnarþáttarins, til forvarna- og meðferðarúrræða, er sá að biðlistum unglinga eftir meðferð hefur verið útrýmt með úrræðum heilbrigðiskerfisins og þeim sem heyra undir forsjá félmrn. Kannanir sýna að dregið hefur úr áfengis- og fíkniefnaneyslu unglinga.

Framboð fíkniefna ræðst á hinn bóginn að miklu leyti af árangri lögreglu og tollgæslu og ég ætla að það sé óumdeilt að þeir lykilaðilar beiti öllum úrræðum sem völ er á.

Hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vil ég þakka fsp. og honum gengur vísast til, eins og Framsfl. fyrir síðustu kosningar, að vekja athygli á fíkniefnavandanum og gott er að vita af þeim liðsmanni.