Átak gegn fíkniefnaneyslu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:50:58 (1123)

2000-11-01 17:50:58# 126. lþ. 18.4 fundur 38. mál: #A átak gegn fíkniefnaneyslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Víða um landið eru að myndast samtök foreldra, skóla, íþróttafélaga, lögreglu og annarra sem vilja hefja einarða baráttu gegn fíkniefnavánni. Ég hvet hv. þm. Steingrím J. Sigfússon til að kynna sér þá vakningu sem á sér stað meðal þjóðarinnar allrar gegn þessum mikla vágesti.

Staðreyndin er einfaldlega sú að árangur næst aldrei nema þjóðin öll vinni saman, jafnt innan þings sem utan. Þess vegna ætti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fremur að fagna því að Framsfl. skuli hafa sett þetta mál á stefnuskrá sína. Hv. þm. ætti fremur að ganga í lið með öllum þeim sem vilja vinna saman í baráttunni gegn fíkniefnum en að reyna að sá fræjum tortryggni og ýta undir sundrungu í stað samvinnu. Þannig næst aldrei árangur í þessu mikilvæga og viðkvæma máli.