Áhættuhegðun karla

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:03:53 (1132)

2000-11-01 18:03:53# 126. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A áhættuhegðun karla# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í lið 6.10. í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar sem var samþykkt vorið 1998 segir undir yfirskriftinni Áhættuhegðun karla, með leyfi forseta:

,,Karlar og drengir eru miklum mun fleiri en konur meðal þeirra sem slasast, svipta sig lífi og misnota vímuefni. Ljóst er að hér er um heilbrigðisvandamál að ræða og mikilvægt er að leita orsaka þess. Því mun ráðuneytið kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir.``

Herra forseti. Ísland er á ótrúlega skömmum tíma að breytast úr samfélagi veiðimanna og bænda í upplýsinga- og þekkingarsamfélag. Þessi staðreynd og tölfræðilegar upplýsingar um raunverulega stöðu karla á ýmsum viðkvæmum sviðum þjóðlífsins hljóta að leiða til endurmats á því hvað telst karlmennska og að ný staða karla sé skilgreind, ekki síður en kvenna.

Ýmsar tölfræðilegar upplýsingar liggja fyrir um mismunandi stöðu kynjanna, bæði í skólum og á vinnumarkaði. Að breyta þessu, herra forseti, er viðfangsefni jafnréttisbaráttunnar, ekki síst með það fyrir augum að allir fái að njóta sín og verðleika sinna, en sé ekki þrýst inn í staðlaða ramma.

Ég nefndi skólana og vinnumarkaðinn, herra forseti. En augu þeirra sem láta sig jafnréttismál varða hafa hins vegar ekki beinst í jafnríkum mæli að þáttum sem snúa að slysum og sjálfsvígum og þeim kynbundna mun sem þar er á ferðinni.

Um 65% gesta Unglingaheimilis ríkisins hafa verið drengir. Afskipti lögreglu af unglingum sýna einnig að drengir eru mun líklegri til að komast í kast við lögin og vera undir eftirliti lögreglu, eða 86% á móti 14% stúlkna.

Dauði vegna slysa er margfalt algengari meðal drengja og pilta og sama á við um sjálfsvíg.

Á aldrinum 15--19 ára er dánartala karla tvöfalt hærri en kvenna og á aldrinum 20--24 ára er hún þrefalt hærri.

Nýleg umræða um aukningu á sjálfsvígum hlýtur að leiða hugann að þessum staðreyndum og þar með að raunverulegri stöðu karla, stöðu sem á stundum hefur verið kölluð gjald karlmennskunnar.

Það er því mikilvægt, herra forseti, að samkvæmt framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til að ná fram jafnrétti lætur heilbrrh. kanna sérstaklega þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir.

Samkvæmt upplýsingum frá landlækni í tengslum við umfjöllun um fjölgun sjálfsvíga hér á landi virðist eina þekkta aðferðin til að stemma stigu við sjálfsvígum vera að uppfræða heilbrigðisstarfsfólk. Það er því mjög við hæfi að heilbrrh. beiti sér í þessu máli.

Ég hef þess vegna, herra forseti, og vegna þess að það er sjálfsagt að reyna að komast til botns í því hvort og þá hvaða þátt sú karlmennskuímynd sem drengir eru aldir upp við á í þessari staðreynd, spurt ráðherra eftirfarandi spurninga:

Hefur ráðherra látið kanna sérstaklega þátt karlmennsku\-ímyndar í þeirri hegðun sem orsakar slys, sjálfsvíg og eitranir, eins og segir í jafnréttisáætluninni?

Hverjar eru niðurstöður könnunarinnar ef þær liggja fyrir, en ef ekki, á hvaða stigi er þá nefnd könnun?