Áhættuhegðun karla

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:07:16 (1133)

2000-11-01 18:07:16# 126. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A áhættuhegðun karla# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:07]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Heilbrrn. og landlæknisembættið hafa á undanförnum árum unnið að málefnum sem tengjast slysum og sjálfsvígum á mörgum vígstöðum. Ég vil nefna helstu atriði sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Mikil vinna hefur verið í greiningar- og forvarnastarfi gegn sjálfsvígum á undanförnum árum og hefur landlækni verið falin umsjón þeirra af hálfu ráðuneytisins. Þannig hefur landlæknir komið á samvinnu milli héraðslæknis og geðlæknis á vegum landlæknisembættisins, sálfræðings og prests vegna áberandi sjálfsvígsbylgju sem upp kom í einum landsfjórðungi. Ræddu þeir við aðstandendur þeirra sem framið höfðu sjálfsvíg og héldu almenna borgarafundi um málið. Wilhelm Norðfjörð sálfræðingur vinnur að skýrslu um sjálfsvíg sem mun koma út á næstunni og landlæknisembættið átti aðild að nefnd sem kannaði tíðni og orsakir sjálfsvíga á Íslandi og lagði fram tillögur til úrbóta.

Fyrir ári skipaði landlæknir starfshóp til þess að vinna að þessum málum sem mun væntanlega skila af sér innan tíðar. Lögð er áhersla á að tillögur hópsins verði raunhæfar og áhersla lögð á framkvæmdir fremur en frekari kannanir.

Samstarfsverkefni um þriggja ára átak í geðrækt er þegar hafið og hafa verið ráðnir til þeirra tveir starfsmenn í hlutastarf og áhersla er þar lögð á fræðslu- og forvarnir.

Í júlí óskaði ég eftir úttekt landlæknis á áhrifum e-pillunnar, tíðni þess að fólk leiti til læknis eftir neyslu hennar og hlut hennar í sjálfsvígum og innlögnum á sjúkrahús. Endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir, en ég mun fá hana innan tíðar.

Ljóst er að búið er að gera ýmsar kannanir varðandi eitranir sem eru af ýmsum toga og ekki kynbundnar. Þær eru af mörgum orsökum, þ.e. vegna bæði fikts og fíknar, og svo hafa náttúrlega orðið margar eitranir af völdum efna sem börn hafa komist í og réði ég fyrir tveimur árum síðan sérstakan slysavarnafulltrúa barna sem hefur gert átak hvað þetta varðar.

Varðandi kynjaskiptingu í slysum almennt hefur verið sett á laggirnar sérstök slysaskráning og nú eru öll slys á landinu skráð sérstaklega. Það er ekki nema tæpt ár síðan það hófst þannig að við höfum ekki úttekt úr þeim skýrslum. En það er auðvitað grunnurinn að því að við getum svarað þessu og farið í þá nefndarvinnu sem Alþingi ákvað 28. maí 1998. Öll þessi forvinna er alveg nauðsynleg áður en við göngum til þeirra starfa.

Við höfum verið að einbeita okkur á mjög mörgum vígstöðvum eins og fram hefur komið í máli mínu og hef ég þó talið aðeins lítið eitt upp af því sem við erum að vinna á þessu sviði.