Áhættuhegðun karla

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:13:04 (1135)

2000-11-01 18:13:04# 126. lþ. 18.5 fundur 61. mál: #A áhættuhegðun karla# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá mér áðan er verið að vinna á mörgum afmörkuðum sviðum. Varðandi slysaskráninguna þá er hún kynbundin og það er út af fyrir sig alveg útilokað annað en að vera komin með fyrstu útskrift úr þessari slysaskráningu til að geta farið formlega í þá vinnu sem hér hefur verið rætt um. Og til þess að ná þeim upplýsingum sem þurfa að vera í vinnu eins og Alþingi gerði ráð fyrir þá er náttúrlega tekið á geysilega mörgum þáttum og það þurfa mjög margir að koma að verkinu. Þess vegna höfum við verið að viða að okkur þessum ólíku gögnum sem ég hef hér nefnt.

Við megum hvergi hvika frá þessari áætlun. Það er ekki einfalt að ætla að stúdera karlmennskuímynd í þá veru sem Alþingi ákvað á sínum tíma þannig að við þurfum ýmis gögn áður en við komumst lengra.