Skert þjónusta Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:24:36 (1139)

2000-11-01 18:24:36# 126. lþ. 18.6 fundur 128. mál: #A skert þjónusta Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér gefst ekki langur tími til að gera athugasemdir við mál hæstv. ráðherra en því miður er hér verið að blanda saman tveimur óskyldum málum. Meginvandinn sem nú er við að etja og stendur upp úr eystra er að sjálfsögðu ferilverkin og þær einingar sem úthlutað var til þeirra við sjúkrahúsið. Að vísu er dregið úr sértekjumöguleikum sjúkrahússins með því að fella niður þessi verk. En það sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra um er:

Í fyrsta lagi. Hvaða reglur voru viðhafðar við úthlutun á ferilverkaeiningunum í upphafi fyrir þetta ár?

Í öðru lagi. Hvernig er staðan almennt á landinu vegna ferilverkana?

Og í síðasta lagi. Er hugsanlegt að endurskoða þá úthlutun sem gerð var fyrir árið í ljósi þeirra staðreynda sem nú liggja fyrir, þ.e. að heill landshluti er nú án þessara ferilverka?

Það er auðvitað augljóst Austfirðingar geta ekki sætt sig við að fá ekki að njóta þessarar þjónustu.