Skert þjónusta Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:27:55 (1141)

2000-11-01 18:27:55# 126. lþ. 18.6 fundur 128. mál: #A skert þjónusta Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég deili þeirri skoðun með þeim sem hér hafa talað um að við eigum að auka öll þau verk sem hægt er úti á landi. Ekki síður en hér, því alltaf þarf aukna þjónustu alls staðar. Að því hefur verið unnið. Ég minntist á það hér áðan að við höfum aukið fjárframlög til stofnunarinnar verulega og létt henni róðurinn.

Bréfið sem ég vitnaði hér í olli því að mikil umræða hefur orðið um málið, ég vildi bara að það kæmi upp á borðið. Það er út af ferilverkunum.

Ég var spurð að því við hvað við miðuðum. Við miðuðum við 15.000 einingar í fyrra og þrefölduðum það í ár. Það dugir greinilega ekki.

Ég var einnig spurð: Fær sjúkrahúsið aukafjármagn? Ég svaraði því líka áðan. Það er verið að vinna með stjórnendum stofnunarinnar fyrir austan að greina hver staðan raunverulega er.

Ferilverk er svolítill einkapraxís sem hefur verið við lýði alveg frá 1992 eða 1993 og sumpart hefur það gengið ágætlega, en á þeim eru margir annmarkar sem ekki hefur verið auðvelt að sníða af. Þess vegna sagði ég áðan að við yrðum að skoða málið í heild sinni, bæði þetta atriði og önnur.

En ég endurtek að við höfum byggt þannig upp úti á landi að sjúkrahúsin séu sterkari og stærri. Ég vil taka fram að við höfum verið mjög heppin í Neskaupstað og mig langar ekki að standa í stríði við einn eða neinn þar. Þar höfum við haft alveg geysilega sterkt og gott starfsfólk sem hefur komið sér afskaplega vel fyrir fjórðunginn.