Búsetuþróun

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:30:25 (1142)

2000-11-01 18:30:25# 126. lþ. 18.14 fundur 58. mál: #A búsetuþróun# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:30]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Herra forseti. Á þskj. 58 hef ég lagt fram fsp. til hæstv. iðn.- og viðskrh. um búsetuþróun. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hefur kostnaður samfélagsins af búsetuþróuninni sem hefur orðið frá árinu 1986 verið metinn og hefur Byggðastofnun metið áhrif lagasetningar, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróunina í landinu, í samræmi við 16. tölul. þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999?``

Skemmst er frá því að segja að flestöll erum við sammála um að búsetuþróunin er mikill þjóðarvandi, ekki landsbyggðarvandi heldur þjóðarvandi. Undanfarin 8--10 ár höfum við þurft að horfa upp á að tæplega 12.000 manns hafa flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Hæstv. forsrh. hefur sagt að kostnaður við hvern nýjan íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem flyst frá landsbyggðinni sé um 3--6 millj. kr. á ári og miðað við 2.000 manna flutning á ári er því um að ræða 6--12 milljarða kr. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sáu ástæðu til þess á aðalfundi sínum í fyrra að gera sérstaka samþykkt og óska eftir viðræðum við ríkisstjórn um að ríkisvaldið taki þátt í þeim mikla kostnaði sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verða fyrir vegna þessara miklu búferlaflutninga.

Þess vegna er spurning mín sett fram um hvort eitthvað hafi verið gert með þá þál. sem samþykkt var, hvort Byggðastofnun hafi metið áhrif lagasetninga, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á þessi atriði. Hefur t.d. verið metið hver kostnaður samfélagsins verður af nýlegum breytingum á þungaskatti? Áður olli breyting á þungaskatti því að flutningskostnaður út á land hækkaði mjög mikið og margir spá því að síðasta breyting á þungaskattinum, sem er að koma fram núna við álagningu um þessar mundir, muni stórauka tekjur ríkissjóðs vegna þess að þessir skattar hafi hækkað. Hefur t.d. verið lagt mat á áhrif þess að miða fasteignagjöld á landsbyggðinni við fasteignamat á höfuðborgarsvæðinu? Og síðast en ekki síst, eins og ég sagði áðan: Hefur verið lagt mat á þessa byggðaröskun og er hæstv. iðnrh. sammála hæstv. forsrh. um að kostnaður á hvern íbúa sem flyst til höfuðborgarsvæðisins sé 3--6 milljónir á hvern íbúa, þ.e. 6--12 milljarðar á ári, miðað við að 2.000 manns flytji hingað suður?