Búsetuþróun

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:33:50 (1143)

2000-11-01 18:33:50# 126. lþ. 18.14 fundur 58. mál: #A búsetuþróun# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir fsp. sem hér er flutt og svar mitt er þetta:

Kostnaður samfélagsins hefur ekki verið metinn að fullu. Byggðastofnun óskaði eftir slíku mati frá verkfræðistofunni VST á síðasta ári. Verkfræðistofan var þá að vinna að mati á kostnaði höfuðborgarsvæðisins af uppbyggingu nýrra svæða, þ.e. kostnaði aðflutnings sveitarfélaganna, og liggur sú niðurstaða fyrir.

Hinum þætti athugunarinnar sem snýr að kostnaði brottflutnings sveitarfélaganna var frestað og lagði þróunarsvið Byggðastofnunar til við stjórn Byggðastofnunar að þessi kostnaðarathugun yrði hluti af víðtækari athugun á samfélagslegum áhrifum búseturöskunar. Gerð hefur verið verkefnalýsing og leitað eftir samstarfi við ýmsa aðila um það mál. Verkefnið er því á verkefnalista stofnunarinnar.

Áhrif lagasetningar á byggðaþróun hafa verið metin þegar erindi þar um hafa borist Byggðastofnun. Á síðasta ári gaf stofnunin umsögn um þrjú þingmál en það voru frv. til breytinga á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þáltill. í byggðamálum og frv. til breytinga á lögum um Byggðastofnun.

Það sem af er þessu ári hefur stofnunin veitt umsagnir um fimm þingmál. Áhugi hefur verið á því innan stofnunarinnar að meta kerfisbundið öll lagafrv. sem lögð eru fram á Alþingi. Hv. þm. Magnús Stefánsson hefur ásamt fleiri hv. þm. lagt fram till. til þál. þess efnis að með stjórnarfrv. sem lögð eru fyrir Alþingi fylgi mat á því hvaða áhrif lögfesting frv. kunni að hafa á byggða- og atvinnuþróun í landinu.

Áhrif einstakra stjórnvaldsaðgerða hafa verið metin þegar erindi hafa borist til Byggðastofnunar. Á árinu 1999 gaf stofnunin umsagnir um ellefu mál og það sem af er þessu ári hefur hún veitt umsagnir um níu mál.

Að öðru leyti vil ég taka undir margt sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda. Ég hef ekki minni áhyggjur af byggðaröskun en hann, vil ég meina. Ég vil þó láta koma fram, til þess að eitthvað jákvætt komi inn í þessa umfjöllun, að miðað við Hagvísi Þjóðhagsstofnunar frá því í október er þróunin, a.m.k. tímabundið, eitthvað að breytast. Ég ætla að lesa, hæstv. forseti, nákvæmlega það sem stendur þar:

,,Tölur Hagstofu Íslands um búferlaflutninga fyrir fyrstu 9 mánuði ársins 2000 staðfesta að breyting sem fyrst varð vart við á öðrum ársfjórðungi ársins hefur fest sig í sessi, að minnsta kosti um sinn. Enn dregur úr búferlaflutningum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og flutningar þaðan út á land aukast.``

Það er langt frá því að ég telji, þrátt fyrir þessa þróun, að björninn sé unninn heldur þurfum við svo sannarlega að halda vel á málum til að sú óheillaþróun sem verið hefur í mörg ár haldi ekki áfram.

Hv. þm. kom með nokkrar viðbótarspurningar í ræðu sinni áðan, sem hann hafði ekki flutt skriflega, og ætla ég aðeins að svara þeim. Í fyrsta lagi vil ég segja í sambandi við þungaskattinn sem hefur verið mikið vandræðamál hér á hv. Alþingi, sem þingmenn hafa lagt mikla vinnu í að reyna að haga sem sanngjarnast, að töfraorðið hefur ekki verið fundið í þeim efnum. Síðasta breyting frá því í vor er langt frá því að leiða til þess að allir verði sáttir. En ég tel hins vegar að sú tekjuaukning sem orðið hefur vegna þungaskatts sé fyrst og fremst vegna þess að bílum undir 4 tonnum hafi fjölgað mjög og þeir eru inni á þessum skattstofni.

Um fasteignagjöld vil ég segja að þar hefur ríkisstjórnin tekið stórt skref með nýlegum ákvörðunum. Með því fer rúmur milljarður kr. af hálfu ríkisvaldsins í að lækka fasteignagjöld á landsbyggðinni, sem ég lýsi sérstakri ánægju með. Í þriðja lagi vil ég segja um það sem haft er eftir hæstv. forsrh. um kostnaðinn, að í mínu ráðuneyti liggja ekki fyrir vísindalegar rannsóknir sem segja til um þær upphæðir þannig að ég þori ekki að staðfesta það.