Kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:48:24 (1149)

2000-11-01 18:48:24# 126. lþ. 18.15 fundur 95. mál: #A kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Nýlega hefur frést af áformum ríkisstjórnarinnar um að taka yfir meirihlutaeign vestfirskra sveitarfélaga í Orkubúi Vestfjarða og láta andvirðið ganga upp í skuldir þeirra við félagslega húsnæðiskerfið. Þetta hefur birst í fjölmiðlum undanfarna daga.

Orkubú Vestfjarða tók til starfa 1. janúar 1978. Það er sameignarfélag ríkissjóðs og sveitarfélaganna í Vestfjarðakjördæmi þar sem ríkissjóður á 40% en sveitarfélögin 60%. Þetta eignarform byggir á þeirri hugsjón að rétt sé að hlutur hvers einstaklings í þessu almenningsfyrirtæki vegi jafnmikið hvar sem hann er búsettur á Vestfjörðum og engum sameignarfélaga er heimilt að ganga úr fyrirtækinu án samþykkis allra hinna.

Orkubú Vestfjarða er lýsandi dæmi um samtakamátt vestfirskra sveitarfélaga. Það annast orkuöflun og dreifingu við erfiðar aðstæður með þeim ágætum að Vestfirðingar njóta lægra orkuverðs en margir aðrir landsmenn. Við Orkubúið starfar hópur tæknimenntaðs fólks og þar eru mikilvægar stjórnunarstöður og tiltölulega öflugar þjónustudeildir dreifðar um þjónustusvæðið. En einkavætt orkubú selt hæstbjóðanda mun trauðla hafa þessa hagsmuni Vestfirðinga efst á blaði þegar til koma arðsemiskröfur við ákvörðun raforkuverðs.

Félagsíbúðakerfið er tilkomið fyrir atbeina ríkisvaldsins, samtaka launþega, atvinnurekenda, opinberra lánasjóða og sveitarfélaga og er hluti af kjarasáttmála atvinnulífsins. Þeirri fyrirætlan ríkisins að taka þetta orkufyrirtæki af Vestfirðingum má líkja við það þegar lénsherrar til forna tóku bestu kúna úr fjósi leiguliða sinna til að standa skil á leiguskilmálum sem landeigendur settu sjálfir í upphafi.

Þegar lánastofnanir lána fé taka þær áhættu sem þeim ber að standa við. Þegar ríkisvaldið og Samtök atvinnulífsins leggja út stefnu og taka á sig skuldbindingar ber þeim einnig að taka afleiðingum. Þessar félagslegu íbúðir komu að miklu gagni á sínum tíma og gera það enn. Þeir sem stóðu að þeim í upphafi og bera hér allir ábyrgð eiga að taka höndum saman og leysa úr vandamálinu á landsvísu. Sú ætlan stjórnvalda að taka Orkubúið upp í skuldir við gjaldþrot byggðastefnunnar jaðrar við kúgun af hálfu stjórnvalda.

Herra forseti. Þrátt fyrir að fyrirspurn minni hafi að langmestu verið svarað í fjölmiðlum óbeint að undanförnu leyfi ég mér samt að spyrja hæstv. iðnrh.:

Hvernig standa raunverulega viðræðukaup ríkisins á 60% hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða og er það virkilega satt að ríkisstjórnin hyggist knýja sveitarfélögin á Vestfjörðum til að selja hlut sinn í Orkubúinu til að greiða skuldir vegna félagslegra íbúða?