Kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 18:51:22 (1150)

2000-11-01 18:51:22# 126. lþ. 18.15 fundur 95. mál: #A kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Viðræðunefnd ríkisstjórnarinnar og sameigenda ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hóf störf sl. vor. Þar sem sjónarmið sveitarfélaga til sölunnar eru ekki einhliða leggur nefndin til að rekstrarformi Orkubúsins verði breytt í hlutafélagsform en af því mundi leiða að þau sveitarfélög sem þess óskuðu gætu kvaðalaust selt ríkinu eignarhlut sinn. Í kjölfar þessa ákvað viðræðunefndin að láta athuga ýmis lagaleg atriði tengd hlutafélagavæðingu og verðmeta fyrirtækið með tilliti til hugsanlegra kaupa.

Um þessar mundir eru yfirfarin ýmis lagaleg atriði er snerta hugsanleg kaup ríkisins og framkvæmd þeirra kaupa. Gengið er út frá því að einvörðungu verði breytingar á rekstrarformi og eignarhaldi fyrirtækisins en fyrirtækið haldi að öðru leyti núverandi stöðu sinni sem mest óbreyttri þar til breytingar verði á skipulagi raforkumála með nýjum raforkulögum sem taka gildi eigi síðar en 1. júlí 2002. Sveitarstjórnir sameigenda ríkisins í Orkubúi Vestfjarða þurfa hver fyrir sig að samþykkja breytt rekstrarform Orkubúsins. Jafnframt þarf að halda fund sameigenda þar sem sameignarfélaginu er slitið og hlutafélag stofnað í framhaldinu. Þá þarf hver sveitarstjórn að taka sjálfstæða afstöðu til sölu á eignarhluta sínum.

Forsendan fyrir því að þetta gangi fram er að Alþingi geri breytingu á lögum um Orkubúið þar sem kveðið er á um breytt rekstrarform og ýmis fleiri atriði, þar með talið áframhaldandi skattleysi fyrirtækisins, a.m.k. á gildistíma núgildandi raforkulaga. Loks þarf Alþingi að samþykkja kaupin, sbr. 29. gr. laga nr. 88/1997. Komi til þess að ríkið kaupi eignarhluta sveitarfélaganna í Orkubúinu hafa fulltrúar heimamanna lagt áherslu á eftirfarandi atriði:

Að gjaldskrá Orkubúsins verði aðlöguð gjaldskrá Rariks í áföngum á gildistíma núverandi raforkulaga.

Að störfum við Orkubúið fækki ekki á gildistíma núverandi raforkulaga.

Að sem minnst breyting verði á skipan stjórnar Orkubúsins á gildistíma núverandi raforkulaga.

Að þau sveitarfélög sem ekki vilja selja ríkinu eignarhluta sinn nú geti gert það innan tiltekins frests og þá á sama verði og þau sveitarfélög sem nú selja.

Með bréfi, dagsettu 24. september 1999, óskaði nefnd á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar til þeirrar hugmyndar að gera Orkubú Vestfjarða að hlutafélagi og/eða ganga til viðræðna um sölu á eignarhluta sveitarfélaganna í Orkubúinu. Á fundi ríkisstjórnarinnar 12. október 1999 var samþykkt að ganga til viðræðna við sameigendur ríkisins í Orkubúi Vestfjarða um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhlut þeirra í Orkubúinu. Náist samningar um kaup ríkisins á hlut sveitarfélaga í Orkubúinu verða þeir gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þeir munu byggja á þeirri vinnu sem fram hefur farið á vettvangi viðræðunefndarinnar en þess má geta að nefndin átti fund í sumar með fulltrúum allra þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga í Orkubúi Vestfjarða.

Verði af stofnun hlutafélags og vilji einstök sveitarfélög ganga að tilboði ríkisins þá verða kaupin bundin því skilyrði að sveitarfélög með mikla greiðslubyrði lána verji hluta söluverðmætisins til að greiða niður hluta áhvílandi skulda. Jafnframt er gert ráð fyrir að hluti söluverðmætisins gangi til lausnar á þeim vanda sveitarfélaganna í félagslega íbúðakerfinu sem skilgreindur hefur verið sem bráðavandi. Það er sveitarfélaganna að ákveða hvert fyrir sig hvort þau selja hlut sinn. Ríkisstjórnin er ekki að knýja sveitarfélögin til eins eða neins.