Kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:02:36 (1156)

2000-11-01 19:02:36# 126. lþ. 18.15 fundur 95. mál: #A kaup ríkisins á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:02]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér finnst þessi umræða bera nokkurn keim af því að hv. þm. séu að fiska í gruggugu vatni (Gripið fram í.) vegna þess, eins og hv. þm. hafa tekið eftir, að þingmenn Vestfjarða hafa ekki tekið þátt í þessari umræðu nema einn varaþingmaður sem kom inn í dag. Það segir sína (Gripið fram í: Þeir eru örugglega á fundi.) sögu þannig að ég held að hv. þm. hefðu átt að hugsa sig aðeins betur um áður en þeir höfðu uppi stór orð um að hér ætti að knýja sveitarfélög á Vestfjörðum út í eitthvað sem þau ekki vilja gera.

Eins og fram kom í svari mínu áðan þá er það með bréfi, dagsettu 24. september 1999, að nefnd sem starfar á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga óskaði eftir því við ríkisstjórnina að upp yrðu teknar viðræður um hugmyndir um að gera Orkubú Vestfjarða að hlutafélagi og/eða ganga til viðræðna um sölu á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúinu. Það er því skylda mín að verða við beiðni þeirra og taka upp þessar viðræður. Hvernig þeim lýkur ætla ég ekki að fullyrða um á þessari stundu. Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa sjálfstæði til að taka ákvörðun um það sjálf hvort þau vilja fara út í þetta eða ekki. Málið er þannig statt á þessari stundu. Ég harma að hv. þm. skuli ræða þetta mál á þessum nótum. Okkur gengur ekkert annað til en að bregðast við erindi þeirra og reyna að leysa úr málum Vestfirðinga á þann hátt sem þeir hafa sjálfir farið fram á.

Þessi umræða verður þó vonandi til þess að hv. þm. hafi meiri skilning á því sem hér um ræðir en þeir höfðu áður. Það er a.m.k. einlæg von mín.