Rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:05:02 (1157)

2000-11-01 19:05:02# 126. lþ. 18.16 fundur 62. mál: #A rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var vorið 1998 segir í lið 9.4 undir fyrirsögninni Rannsóknir á stöðu kynjanna í skólakerfinu verði efldar, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðuneytið mun láta fara fram rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu þar sem sérstaklega verður hugað að líðan hvors kyns fyrir sig í skólum. Á grundvelli slíkra athugana verði kannað hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi í ákveðnum greinum eða þáttum tryggi betri námsárangur og líðan bæði stúlkna og drengja.``

Rannsóknir hafa leitt í ljós mikinn mun kynjanna þegar kemur að mælanlegum þáttum þeirrar þjónustu og þess stuðnings sem skólakerfið veitir. Drengir hafa t.d. verið 70% þeirra nemenda sem taldir eru þurfa sérkennslu í grunnskólanum. Á móti hefur það hins vegar sýnt sig ítrekað að stúlkur hafa verið með hærri meðaleinkunnir í samræmdum prófum og það í öllum greinum, herra forseti, og í öllum bekkjum. Drengir taka bróðurpartinn af tíma kennarans samkvæmt könnunum og hinn litli tími sem stúlkurnar fá gæti bent til þess að þær fái ekki sinn réttláta skerf af hvatningu og leiðsögn. Af þessu hafa sprottið áhyggjur manna af því að skólinn komi ekki nægilega til móts við þarfir kynjanna.

Á undanförnum árum hafa nokkrir skólar gert tilraunir með að skipta nemendum í bekki eftir kyni. Ég minni á að Gagnfræðaskólinn á Akureyri var með slíka könnun fyrir áratug. Tjarnaskóli í Reykjavík hefur stundað slíkar tilraunir og margir fleiri. Það hefur einnig vakið óskipta athygli, herra forseti, að á leikskólanum Hjalla í Hafnarfirði hefur ákveðin vinna verið í gangi sem byggir á aðgreiningu kynjanna hluta úr starfsdeginum.

Bæði hér og annars staðar á Norðurlöndum hefur umfjöllun um jafnrétti og kynferði farið vaxandi innan uppeldisgreina. Sú umfjöllun mótast af þeim viðhorfum að kynjamisrétti endurspeglist í skólastarfinu og því sé unnt að vinna gegn misrétti kynja og stuðla að jafnrétti með vinnunni innan skólanna. Í þessu ljósi, herra forseti, hef ég lagt, ásamt hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. menntmrh., með leyfi forseta:

,,Hefur ráðherra látið fara fram rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu og látið kanna hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi tryggi betri námsárangur eða líðan þeirra, sbr. lið 9.4 í þál. um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna sem samþykkt var á Alþingi 28. maí 1998?``