Rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:13:11 (1159)

2000-11-01 19:13:11# 126. lþ. 18.16 fundur 62. mál: #A rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þessi fsp. skuli hafa komið fram því ég held að þetta sé mál sem er full þörf á að ræða. Það er í sjálfu sér gleðilegt að hér skuli hafa komið fram að hæstv. menntmrh. er meðvitaður um málið og að unnið sé að ýmsum athugunum á þessu í kerfinu. Ég verð samt að segja að undanfarið hafa borist ýmsar fréttir af atferli og gengi drengja í skólum landsins sem hafa vakið áhyggjur, a.m.k. hjá mér sem gömlum kennara, um að neikvæð þróun sé í gangi í þessum málum. Ég held, þó vissulega beri að þakka það sem vel er gert, að ástæða sé til að hnykkja á og efla enn rannsóknir og tilraunir í þessum málum. Ég tel ástæðu til að ætla að að mörgu leyti megi koma í veg fyrir þessa neikvæðu þróun með því að kenna kynjunum aðskildum, þó svo verði ekki gert að öllu leyti.