Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:20:36 (1163)

2000-11-01 19:20:36# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það mun hafa verið 8. jan. 1999, fyrir hartnær tveimur árum, að tilkynnt var um ákvörðun ríkisstjórnarinnar eða áform um byggingu menningarhúsa á landsbyggðinni. Í byrjun var talað um fimm staði og möguleika á fleirum, samkvæmt því sem haft var eftir forsrh. í fréttum þann dag.

Stax þann 16. jan. sama ár brást bæjarráð Akureyrarbæjar við, fagnaði þessum hugmyndum ríkisstjórnarinnar og bauð fram samvinnu sína við ríkisvaldið um framkvæmdina hvað varðaði Akureyri. Það má því segja að Akureyringar hafi valið þann kost að taka ríkisstjórnina á orðinu og bjóða strax fram aðstoð sína við að láta þessi áform verða að veruleika.

Þannig var unnið að málinu af hálfu Akureyringa að í kjölfar þessa bæjarráðsfundar skipaði bæjarstjórn starfshóp sem vann ítarlega skýrslu sem skilað var fyrir árslok 1999. Þannig er ljóst að vel innan árs frá því að ríkisstjórnin tilkynnti um áform sín lágu fyrir útfærðar hugmyndir fyrsta sveitarfélagsins sem að þessu máli kom, um hvernig mætti láta þessi áform fram ganga á Akureyri í samstarfi bæjarfélagsins og ríkisvaldsins.

Á Alþingi sl. haust, fyrir rétt rúmu ári, spurði hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir ráðherra eftir efndum þessara áforma og þá upplýsti ráðherrann að þess væri að vænta innan skamms að málið mundi koma fyrir Alþingi. Síðan hafa Akureyringar lokið undirbúningsstarfi sínu og kynnt það fyrir ríkisstjórn. Það var gert strax í upphafi þessa árs. Síðasta vetur, á útmánuðum eða með vori, skrifaði hæstv. menntmrh. undir samning við Akureyrarbæ um samstarf í menningarmálum og þar var sérstaklega kveðið á um að stefnt yrði að niðurstöðu í samskiptum þessara aðila um byggingu menningarhúss á Akureyri í ágústmánuði á þessu ári.

Nú er kominn nóvember, herra forseti, og ekki bólar enn á ákvörðunum eða efndum. Menn eru því að verða langeygðir eftir því að niðurstaða fáist í þetta mál. Það háir ýmsum aðilum sem vilja vita hvar þeir standa í þessum efnum að þetta langur tími skuli hafa liðið án þess að málin komist á frekari rekspöl. Það er algjörlega augljóst mál, herra forseti, að aðilinn sem á stendur í þessu tilviki er ríkisstjórnin, henni hefur unnist seint í þessu máli þrátt fyri glæst loforð í aðdraganda alþingiskosninga í jan. 1999.

Nú er tímabært, og þó fyrr hefði verið, að hæstv. menntmrh. upplýsi okkur um hvernig þessi áform standa. Því hef ég lagt fyrir hann spurningar þar um í tveimur liðum, annars vegar hvað varðar málið almennt og hins vegar sérstaklega varðandi tilboð Akureyringa um að reisa menningarhús.