Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:37:35 (1172)

2000-11-01 19:37:35# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:37]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fyrir skýrsluna góðu sem kom hér svo glóðvolg úr prentverkinu að hún hafði ekki náð að kólna, sömuleiðis fyrir almennar hugleiðingar hæstv. ráðherra sem voru allra góðra gjalda verðar. Það er augljóst að víða eru áhugaverð áform uppi sem tengjast þessu máli á stöðum eins og Vestmannaeyjum, Ísafirði, Fjarðabyggð, Egilsstöðum, Reykjanesbæ o.s.frv. En ég spurði hæstv. ráðherra gagngert um það hvað liði afstöðu ríkisstjórnarinnar eða ákvörðun ríkisstjórnarinnar varðandi tiltekið tilboð frá Akureyrarbæ um að ganga til samstarfs við ríkið um að reisa þar tiltekið menningar- og ráðstefnuhús og ég hafði vonast eftir skýrari svörum. Það er alveg ljóst að það mál er langlengst komið, eftir því sem ég veit eða á sér a.m.k. lengsta (Gripið fram í: Nei.) sögu nú þegar. (Gripið fram í: Það er ekki lengst komið.) Ég hygg að Akureyringar hafi fyrstir brugðist við þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar. Um það er ekki deilt, (Gripið fram í.) hv. þm. Árni Johnsen, og þeir settu þegar í stað vinnu í gang hvað þetta varðar.

Herra forseti. Mér finnst að þar sem fyrir liggur tiltekin hugmynd tilbúin, um ráðstefnu- og menningarmiðstöð þar sem slá átti tvær flugur í einu höggi og efla jafnframt ferðaþjónustu í leiðinni til hliðar við menningarstarfsemina, þá sé til vansa að það dragist og að það sé að verða ár um liðið frá því að ríkisstjórnin fékk þessar tillögur án þess að nein almennileg svör hafi borist. Þetta var allt meira og minna í þoku hjá hæstv. ráðherra áðan þegar kom að því að svara þessu. Um þetta mál er ekki ágreiningur á svæðinu. Mér er ekki kunnugt um að neinir aðrir séu að gera kröfur um að fá samstarf við ríkisstjórnina um þessa uppbyggingu. Ég þekki ekki til þess. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Getur hæstv. ráðherra gert betur og heitið því að á næstu vikum fáist botn í þetta mál þannig að í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar og í fjárlögum næsta árs sjáist þess stað að nú eigi að efna þessi loforð?