Fjöldi skipstjórnarmanna og vélstjóra á fiskiskipum og kaupskipum

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:50:26 (1179)

2000-11-01 19:50:26# 126. lþ. 18.19 fundur 110. mál: #A fjöldi skipstjórnarmanna og vélstjóra á fiskiskipum og kaupskipum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:50]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar er það að fyrr á þessu ári svaraði hæstv. samgrh. fyrirspurn minni um undanþáguveitingar til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum. Kom verulega á óvart sá fjöldi sem hefur fengið undanþágur á þeim þremur árum sem spurst var fyrir um, þ.e. 1997, 1998 og 1999. Á þessum þremur árum hafði verið sótt um fyrir 714 skipstjórnarmenn, undanþágur voru 580 sem 496 menn fengu. Vegna vélstjóra voru umsóknirnar um undanþágur 2.527. Undanþágur voru 2.166 sem 1.473 menn fengu.

Á síðasta ári voru 160 nemendur í Vélskólanum og á sama tíma 38 nemendur í Stýrimannaskólanum. Nú standa málin hins vegar þannig að í Stýrimannaskólanum eru 50 nemendur og heldur hefur fækkað í Vélskólanum, þeir eru nú 140.

Alvarlegast í þessu er að um 25 vélstjórar útskrifast árlega með 4. stigs menntun vélstjórnar og að meðaltali eru þeir aðeins tveir til þrír sem halda til hafs, hinir fara í margþætta og flókna tækni- og tækjavinnu, sem kallar á svo vel menntaða menn sem vélstjórar eru og er það vel í sjálfu sér. En það er hins vegar umhugsunarefni hvort rétt sé að staðið að í sjómannaskóla séu menn að öðlast menntun sem að meginhluta þjónar fyrirtækjum í landi á sviði véltæknibúnaðar.

Þess vegna hef ég lagt fram eftirfarandi spurningar til hæstv. samgrh.:

1. Hve margar stöður yfirmanna eru nú við skipastól Íslendinga og hvernig skiptast þær milli skipstjórnarmanna og vélstjóra

a. á fiskiskipum,

b. á kaupskipum?

2. Hve margir skipstjórnarmenn og vélstjórar þurfa að útskrifast á ári hverju svo ekki verði skortur á fólki með slíka menntun fyrir skipastól okkar?