Fjöldi skipstjórnarmanna og vélstjóra á fiskiskipum og kaupskipum

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:53:17 (1180)

2000-11-01 19:53:17# 126. lþ. 18.19 fundur 110. mál: #A fjöldi skipstjórnarmanna og vélstjóra á fiskiskipum og kaupskipum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Spurt er hve margar stöður yfirmanna eru nú í skipastóli Íslendinga og hvernig þær skiptast milli skipstjórnarmanna og vélstjóra annars vegar á fiskiskipum og hins vegar á kaupskipum.

Hvað varðar fjölda stöðugilda skipstjórnarmanna á íslenskum fiskiskipum er nærtækast að taka mið af fjölda skráðra fiskiskipa á íslenskri skipaskrá og ákvæðum laga um fjölda skipstjórnarmanna á íslenskum skipum. Út frá því má áætla að stöður skipstjórnarmanna á íslenskum fiskiskipum séu um 1.100. En þess ber hins vegar að gæta að skráð fiskiskip eru ekki öll í rekstri. Ekki er tekið tillit til þess að á mörgum stærri fiskiskipa skipta skipstjórnarmenn með sér stöðugildum og geta fimm menn verið um hverjar þrjár stöður. Auk þess má benda á að á skipaskrá eru skráð 1.500 fiskiskip sem eru 12 brúttórúmlestir og minni og til að stjórna þeim þarf skipstjóri svokallað 30 brúttórúmlesta próf.

Hvað varðar fjölda stöðugilda vélstjórnarmanna á íslenskum skipum er nærtækast með sama hætti að taka mið af fjölda skráðra fiskiskipa á íslenskri skipaskrá og á ákvæðum laga um fjölda vélstjórnarmanna á íslenskum skipum. Út frá því má áætla að stöður vélstjórnarmanna á íslenskum fiskiskipum séu um 1.100, en þess ber hins vegar jafnframt að gæta, að skráð fiskiskip eru ekki öll í rekstri. Þá er ekki tekið tillit til þess að á mörgum stærri fiskiskipa skipta vélstjórnarmenn með sér stöðugildum og geta fimm menn verið um hverjar þrjár stöður. Auk þess eru 448 þilfarsskip og 817 opnir bátar á skrá þar sem krafist er vélgæslumannsréttinda. Þetta eru bátar undir 20 brúttórúmlestum sem eru með vélar að stærð frá 75--220 kílóvött. Þeirri stöðu má skipstjóri gegna hafi hann sótt námskeið vélgæslumanna.

Hvað varðar fjölda stöðugilda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á íslenskum kaupskipum eru flest kaupskip sem rekin eru af íslenskum skipafélögum og notuð í flutningum til og frá landi ekki skráð á íslenska skipaskrá en samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra kaupskipa er þar um að ræða 43 stöðugildi skipstjórnarmanna og 34 stöðugildi vélstjórnarmanna. Auk þess má gera ráð fyrir 27 stöðugildum skipstjórnarmanna á varðskipum og 39 stöðugildum skipstjórnarmanna á ýmsum skipum, svo sem lóðsbátum, vinnubátum, tollbátum og dráttarbátum og svipuðum fjölda vélstjórnarmanna.

Að öðru leyti er spurt hve margir skipstjórnarmenn og vélstjórnarmenn þurfi að útskrifast á ári hverju svo ekki verði skortur á fólki með slíka menntun. Miðað við fjölda stöðugilda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna má gera ráð fyrir að eðlileg endurnýjun eigi sér stað í þessum starfsheitum eins og hjá öðrum. Til þess að geta sagt nákvæmlega um hve margir skipstjórnarmenn og vélstjórar þurfa að útskrifast á hverju ári svo ekki verði skortur á fólki með slíka menntun, er nauðsynlegt að kynna sér aldursdreifingu starfsstéttanna og einnig þarf að miða við hámarksstarfslengd.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík gerði árið 1998 úttekt um þarfir atvinnulífsins fyrir árlegar brautskráningar skipstjórnarmanna úr Stýrimannaskólanum. Þarfagreining þessi miðaði við að starfslengd skipstjórnarmanna sé 20 ár. Þar kemur fram að úr 4. stigi Stýrimannaskólans sem veitir réttindi til skipstjórnarstarfa á varðskipum, er áætluð þörf allt að fimm brautskráningar.

Úr 3. stigi Stýrimannaskólans sem veitir ótakmörkuð réttindi til skipstjórnarstarfa á farskipum er áætluð þörf 10--15 brautskráningar.

Úr 2. stigi Stýrimannaskólans sem veitir ótakmörkuð réttindi til skipstjórnarstarfa á fiskiskipum er áætluð þörf 25--30 brautskráningar.

Úr 1. stigi Stýrimannaskólans sem veitir réttindi til skipstjórnarréttinda á fiskiskipum minni en 200 brúttórúmlestum er áætluð þörf 55--60.

Samkvæmt þessu má áætla að samtals 90--110 brautskráningar skipstjórnarmanna séu nauðsynlegar á hverju ári og þá aðallega á lægri stigum réttinda. Auk þess er áætlað að úr sjávarútvegsbraut sem veitir réttindi til skipstjórnarstarfa á skipum 30 brúttórúmlestir og minna sé áætluð þörf 80--100 brautskráningar til að viðhalda þeim fjölda sem þegar hafa slík réttindi í dag.

Á þessu skólaári eru nemendur í Stýrimannaskólanum í Reykjavík 50.

Hvað vélstjórnarmenn varðar má gera ráð fyrir að þörfin sé svipuð þar sem starfsgreinin tengist skipstjórnarmenntun náið. Hins vegar er þörfin þar eitthvað minni þar sem skipstjórar á minni bátum geta einnig gegnt stöðu vélgæslumanna ef þeir hafa vélgæslumannaréttindi.