Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:52:15 (1194)

2000-11-02 10:52:15# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Svo ergist hver sem hann eldist. Það er ömurlegt að sjá einhvern athafnasamasta og duglegasta ráðherra, bankastjóra fiskeldismanna og loðdýraræktarinnar, koma í ræðustól með útúrsnúningum. Það er aumt hlutskipti og erfitt að horfa á slíkan ágætisdreng í heljarböndum. Ekki er einu sinni hægt að eyða orðum á málflutning hans hér í flestum málum. Mér öðruvísi áður brá. En svona geta menn farið út úr eigin athöfnum.

Ég ætla að segja að ég hef sem landbrh. skipað stóran vinnuhóp sem fer yfir sambýli villtrar náttúru og fiskeldis, jafnframt lagaumhverfi. Ég hvet til þess að menn fari varlega í þessu. Mikil auðlind er til í íslenskum veiðiám. Það eru hátt í 1.800 hlunnindajarðir sem eiga veiðirétt og við eigum að fara gætilega. Fiskeldið á hér mikla möguleika. Við erum fremstir í lúðueldi í heiminum. Það er nýr sóknarhugur og við verðum að stíga varlega til jarðar. Það er sjálfsagt svo að einhverjir firðir henta undir fiskeldi, kvíaeldi, árið um kring. Þeir eru fáir. Skiptieldi er að koma vel út undir Vogastapa sem gefur mönnum vonir. En aðalatriðið er að fara yfir lagaumhverfið, fara yfir reglurnar, setja þær af festu og ná samstöðu um hvernig að þessum atvinnuvegi verður staðið. Ég tek undir það með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að við eigum að vera þjóð í fremstu röð á þessu sviði og við þurfum að fara af fullri gætni í þetta mál og munum gera það.