Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 10:56:42 (1196)

2000-11-02 10:56:42# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[10:56]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Á síðasta vori afgreiddi Alþingi frá sér lög um mat á umhverfisáhrifum. Með þeim lögum voru gerðar miklar breytingar á aðkomu almennings að upplýsingum og til athugasemda vegna hugsanlegra breytinga á umhverfi og lífríki vegna framkvæmda sem eru í bígerð. Andi þessarar lagasetningar var sá að hverfa frá svokölluðu kæruferli til samráðsferils þar sem allir aðilar máls komast sameiginlega að lokaniðurstöðu stig af stigi. Þannig má losna við mest af þeim árekstrum sem orðið hafa á undanförnum árum vegna fyrirhugaðra framkvæmda eins og við virkjanir, efnistöku og fleira.

Þauleldi laxfiska í sjó í Mjóafirði upp á 8 þúsund tonn hefur verið úrskurðað hjá skipulagsstjóra undanþegið umhverfismati og hefur umhvrh. staðfest þann úrskurð fyrir sitt leyti. Aðallega er stuðst við álit veiðimálastjóra og Hollustuverndar ríkisins. Lítið er gert með álit Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands sem vildi frekari rannsóknir áður en úrskurður félli. Ekki var leitað álits Veiðimálastofnunar né tekið tillit til ESB-reglna sem gera nú ráð fyrir að 100 tonna eldisstöðvar fari í mat. Ekkert er heldur gert með áhyggjur NASF um framtíð villtra laxastofna né félög laxveiðimanna. Það verður að telja eðlilegt þegar um jafnstór áform er að ræða og hér eru til umræðu að gætt sé eðlilegrar varúðar og samráðs við alla þá sem hagsmuna hafa að gæta í málinu. Einnig ber að gæta að fordæmum.

Ég hvet til þess að heildstætt mat á umhverfisáhrifum vegna laxeldis í sjó verði unnið fyrir landið allt eða hluta þess sem gæti gagnast öllum. Ekki er hægt að sjá annað en slíkt mat gæti orðið að undirlagi umhvrh. eins og mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri, sbr. 18. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat þarf ekki að kosta mikið fé né taka langan tíma. Það gæti aftur á móti hjálpað mjög við nauðsynlega uppbyggingu á laxeldi á Íslandi og komið í veg fyrir óþarfaárekstra.