Laxeldi í Mjóafirði

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:03:40 (1199)

2000-11-02 11:03:40# 126. lþ. 19.91 fundur 85#B Laxeldi í Mjóafirði# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og þau skynsamlegu varúðarorð sem hafa komið frá allmörgum ræðumönnum. Ég undirstrika að hér er verið að tala um norskan lax. Þetta er ekki íslenskur fiskur. Það er verið að flytja erlenda stofna inn í íslenskt vatnakerfi.

Ég vil líka ítreka að hættan er sú að missa af lestinni eða lenda aftast í lestinni eða lenda í öllum þeim sömu mistökum og aðrir hafa lent í með því að búa þessari atvinnugrein ekki í upphafi lagaumgjörð.

Varðandi orð hæstv. umhvrh. vil ég benda á að það er alveg hárrétt að samkvæmt lögum ber veiðimálastjóra að gefa þá umsögn sem byggt er á. Ekki veit ég hvort veiðimálastjóri hefur leitað umsagnar Veiðimálastofnunar áður en hann gaf umsögn sína eins og honum ber að gera.

Ég vil líka benda á, herra forseti, að nýlega eða 18. febrúar sl. var gefin út ný reglugerð um flutning, sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna þar sem voru á mjög veikum lagalegum grunni rýmkaðar heimildir veiðimálastjóra til að afgreiða umsóknir um rekstrarleyfi, m.a. um lax af erlendum uppruna.

Hér skal í sjálfu sér ekki lagður dómur á hvort eldi á norskum laxi í kvíum meðfram ströndum landsins sé mögulegt þar eð veðrátta, sjór og ísar búa yfir miklum krafti og eira engu hversu rammgert sem það er. Mun vænlegra væri að skoða strandeldisstöðvar þar sem hægt er að hafa alla þessa þætti undir stjórn og rekstur er öruggari. Það er óþolandi að vegna skorts á lögum og reglum sé ekki hægt að setja fiskeldi nauðsynlegar reglur, skorður og svigrúm og það gefin sem forsenda fyrir því að sleppa nánast öllu lausu. Laxveiði í ám vítt og breitt um landið er ein af stóriðjum dreifbýlisins, talin velta milljörðum kr. með beinum og óbeinum hætti, m.a. í ferðaþjónustu.

Herra forseti. Þetta er eitt af lífakkerum íslenskrar þjóðar og ber að umgangast af virðingu og varúð.