Framlagning stjórnarfrumvarpa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:11:08 (1203)

2000-11-02 11:11:08# 126. lþ. 19.94 fundur 88#B framlagning stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:11]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. forseti Alþingis og aðrir sem koma að stjórn þingsins hafa unnið að því að gera starfsemina hér innan veggja, umræður um þingmál, umfjöllun um þessi mál og afgreiðslu þeirra í senn vandaðri og markvissari og reynt hefur verið að stuðla að því að allar tímasetningar um þinghaldið standist. Forsendan fyrir því að allt þetta gangi eftir er sú að þingmál séu tímanlega komin fram svo unnt sé að ástunda þessi vinnubrögð. Þetta hefur stjórnarandstaðan reynt að gera en ekki verður hið sama sagt um ríkisstjórnina eins og kom fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Þar kom fram að af 182 boðuðum frv. ríkisstjórnarinnar eru einvörðungu 18 komin fram. Það er dapurlegt að ríkisstjórnin skuli með seinagangi og slælegum vinnubrögðum koma í veg fyrr að við tökum upp markvissari og vandaðri vinnubrögð.