Skráning skipa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:41:48 (1212)

2000-11-02 11:41:48# 126. lþ. 19.1 fundur 118. mál: #A skráning skipa# (kaupskip) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:41]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu undirtektir sem frv. fær hjá hv. þm. og það bendir þá væntanlega til þess að það fái greiða leið í gegnum þingið. Það er deginum ljósara að tilgangurinn með flutningi frv. er að reyna að styrkja stöðu kaupskipaútgerðarinnar í harðri alþjóðlegri samkeppni og auðvelda skráningu þeirra skipa.

Aðeins vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þá er það rétt að sumar þjóðir hafa reynt að bæta stöðu kaupskipaútgerðarinnar með skattalegum ívilnunum o.fl. fyrir sjómenn. Það hefur verið til skoðunar hjá okkur en engin niðurstaða er í því máli. Þess vegna er ekki flutt nein tillaga um það að þessu sinni. Það er mjög flókið mál og við þekkjum umræðuna um sjómannaafsláttinn og gagnrýnina sem hefur verið uppi um þá sértæku aðgerð gagnvart sjómönnum, en ég tel engu að síður að við þurfum að skoða alla hugsanlega möguleika til þess að bæta stöðu kaupskipaútgerðarinnar og tryggja það sem mest og best að hún standist samkeppni á hinum alþjóðlega markaði. En ég vil bara ítreka að þetta mál er til skoðunar.

Hvað varðar tvískráningu eða, eins og hv. þm. nefndi, B-skráningu fiskiskipa, þá hefur það mál verið til skoðunar í samgrn. hvort hægt væri að gera breytingar á þessum hlutum hvað varðar fiskiskipin og það hefur vissulega verið sótt mjög á um það af hálfu útgerðarmanna. Það er hins vegar mál sem er mikill ágreiningur um, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Í það minnsta hefur hluti sjómannasamtakanna ekki verið reiðubúinn til að fallast á að heimila tvískráningu fiskiskipa. En ég held að það sé hins vegar alveg nauðsynlegt að vinna áfram að því máli þó að það varði ekki þetta frv. og leita leiða til niðurstöðu því að mér finnst að aðalatriði þess máls hljóti að vera það að hafa reglur sem skapa sveigjanleika og svigrúm til að auka við verkefni fiskiskipaflotans. Ef það gæti gerst með skráningarreglum að skapa útgerðum möguleika á að sækja út enn frekar án þess að þrengja mjög að, þá ætti að skoða það, en þetta er mál sem er annars eðlis og um það er ágreiningur. Það er því ekki hér til meðferðar að þessu sinni.

Hvað varðar ábendingu og fyrirspurn hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um það sem segir í greinargerðinni, að það kunni að hafa verið mistök þegar lögum var breytt 1991 að fella niður ákvæði, þá er það skilningur okkar og niðurstaða í ráðuneytinu að svo hafi verið, en ég geri ekki ráð fyrir því á hinn bóginn að þetta hafi valdið vandræðum enn sem komið er vegna þess að ekki hefur verið leitað eftir neinni breytingu á því ákvæði. Nú erum við hins vegar að taka af skarið og tryggja þessar breytingar með frv. og það er tilgangurinn að koma þessu í það horf sem hér er lagt til, að heimila þessa skráningu. En það fer ekkert á milli mála að það er skilningur ráðuneytisins að þarna hafi í raun orðið fingurbrjótur við lagasetningu sem var partur af bandormi sem fluttur var á sínum tíma.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, vil ég þakka fyrir ágæt viðbrögð við frv. og hef að sjálfsögðu tekið eftir þeim ábendingum sem hér hafa komið fram.