Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:54:47 (1215)

2000-11-02 11:54:47# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:54]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Allt frá árinu 1976 hafa þingmenn Vestfjarða svo og sveitarstjórnarmenn af Vestfjörðum verið algerlega samstiga í því hvar skuli hefjast handa og hvar helst skuli bera niður í áætlunum um vegagerð. Í þeim áætlunum hefur frá upphafi verið lagt til grundvallar að tengja saman byggðir á Vestfjörðum og nú horfir svo að á næsta ári, þegar lokið verður við vegagerð yfir Gemlufallsheiði og vegagerð yfir Kleifaheiði, verði þessum langþráða áfanga loksins náð.

Það er ástæða til að taka undir það með hv. flutningsmanni að of seint hefur miðað við framkvæmdir í vegagerð á Vestfjörðum, það er alveg rétt. Hins vegar ber þess að gæta að á síðustu þremur árum hafa Vestfirðingar þó fengið hlutfallslega meira fé en nokkurn tíma áður til vegagerðar, enda var fyrir löngu kominn tími til þess þar sem þeir eru að mörgu leyti langt á eftir öðrum landshlutum.

Þingmenn Vestfjarða, Fjórðungssamband Vestfjarða svo og þær nefndir sem starfað hafa þar að undirbúningi og tillögugerð um vegamál, hafa verið sammála. Það hefur verið unnið nákvæmlega eftir þeim samþykktum. Sem stendur er unnið að Djúpsáætluninni. Við erum að sjá mjög stóra áfanga núna á næsta ári við Djúpið og síðan verður farið í að klára Skötufjörðinn sem er mikil þörf á.

Þá liggur fyrir einn þáttur í Djúpinu sem er vegagerðin yfir Mjóafjörð og hálsana þar inn í Ísafjörð. Það er ekki búið að afla fjár til þessa en við höfum gert ráð fyrir því að sú vinna haldi áfram strax eftir að hinum áföngunum er lokið. Í dag er öllum þeim fjármunum sem við fáum til vegagerðar varið til þess að geta farið í hið stóra og mikla verkefni, að leggja veg yfir Klettsháls. Klettshálsinn er mesti umferðartálminn sem Vestur-Barðastrandarsýsla á við að glíma og það er gríðarlega mikilvægur og stór áfangi að komast yfir Klettsháls. Þegar því er lokið stöndum við frammi fyrir spurningunni: Hvað ætlum við að gera úti á Skálanesi? Héraðsnefndir og hreppsnefndir hafa óskað eftir því að við könnum þar tvo möguleika, að fara yfir Þorskafjörð eða hinn möguleikann --- sem ég hef alltaf talið miklu raunhæfari en við skulum sjá hvað kemur upp úr kössunum þegar við höfum skoðað kostnaðaráætlunina --- að fara skerjaleiðina, þ.e. fara frá Skálanesi yfir í Grónesið og þaðan yfir í Hallsteinsnesið inn af Þorskafirði norðaverðum.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, að það er lífsnauðsylegt fyrir byggðir á Vestfjörðum að komast í heilsárssamband við meginlandið. Svo er ekki í dag og það háir okkur gríðarlega mikið. Þetta hlýtur að vera verkefnið. Þannig höfum við unnið og þannig ætlum við að vinna, að koma okkur í heilsárssamband. Það er skelfilegt ástand oft á veturna í Vesturbyggð og Tálknafirði þar sem við höfum engar samgöngur á landi og við verðum að treysta á Baldur sem er löngu orðinn úreltur og allt of lítill. Þetta hafa verið forgangsverkefnin og verða áfram, að klára Djúpið og gera vegi í Barðastrandarsýslu færa allt árið til að tengja þessar byggðir.

Ég er hins vegar ekki í vafa um að þegar þessu lýkur og við sjáum fram á hvernig við ætlum að fjármagna þetta þá verða Vestfirðingar að taka höndum saman, þ.e. þingmenn og bæjarstjórnarmenn, um að ákveða hvað við ætlum síðan að gera. Hvernig ætlum við að tengja saman byggðirnar? Á undanförnum árum hafa komið fram áskoranir um Arnkötludal og einnig um veginn um Þorskafjörð. Þingmenn Vestfjarða hafa verið samstiga í að láta ekki þessar áskoranir trufla megingerð veganna. Við höfum ekki látið slíkar áskoranir trufla okkur neitt í því sem við erum að framkvæma. Við höfum þannig geymt þetta og enginn tekið afstöðu til þessara hluta.

Hins vegar er ég sannfærður um að þegar þar að kemur að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum og þingmenn taka ákvörðun um hvar eigi að tengja saman byggðirnar þá verði allir á einu máli um að það sé tengingin Vatnsfjörður--Dýrafjörður, vegur yfir Dynjandisheiði og göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ég er alveg viss um að það verður niðurstaðan. Það hefur óskaplega mikla þýðingu fyrir byggðirnar að tengja vestur- og norðurbyggðirnar saman. Það skiptir máli á öllum sviðum, á sviði félagsmála, heilbrigðismála, menntamála og ég tala ekki um gagnvart atvinnulífinu, að tengja þær saman. Það skapast gersamlega ný viðhorf þegar þar að kemur.

Við höfum borið gæfu til þess gegnum árin að standa saman að þessu. Það hefur verið samstaða meðal Vestfirðinga um það þó að oft hafi töluvert verið deilt áður en samkomulag hefur náðst um hvað ætti að gera. Núna er samkomulag um hvað við eigum að gera og ég veit ekki um neinn sem hefur skorist þar úr leik. Samkomulagið er um að tengja Vesturbyggðina og Djúpið, tryggja vetrarsamgöngurnar.

[12:00]

Herra forseti. Ég verð því segja, með allri virðingu fyrir góðum hug sem að baki þessarar tillögu liggur, að mér finnst hún ekki tímabær. Mér finnst hún alls ekki vera neitt á dagskrá í dag. Það er ekki vegur að Ísafirði að norðanverðu og það er ekki heldur vegur suður þegar komið er inn í Mjóafjörðinn. Svo er ekki. Við eigum eftir að leysa málið frá Skálanesi, þ.e. hvernig við ætlum að komast suður fyrir. Við þurfum að komast fyrir þessa tvo hálsa, Ódrjúgsháls og Fjallháls. Þetta er því ekki á dagskrá nú. Við hljótum hins vegar þegar kemur að okkur, og það er gert ráð fyrir því í vegáætlun að fé sé varið til undirbúnings jarðganga og þar eru Vestfirðir inni að sjálfsögðu, að eyða þeim peningum í að gera það sem er langlíklegast að gagnist byggðunum best. Í dag er verið að vinna undirbúningsvinnu að því að kanna jarðgangagerð milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Þetta er á dagskrá.

Herra forseti. Ég vonast til þess að í framtíðinni verði áfram samstaða milli þingmanna Vestfjarða og héraðsnefndanna og sveitarstjórnanna á Vestfjörðum um hvað og á hvern veg við ætlum að stefna fram vegna þess að ef við förum að vera ósamstæðir hér á þinginu um hvað við viljum gera og hvert á að stefna þá erum við alveg máttlausir, alveg máttlausir. Nógu erfitt hefur verið í gegnum tíðina að afla stuðnings við fjármagn til Vestfjarða. Við verðum að vera samstæðir um þetta í framtíðinni og ég vona að svo verði. Þess vegna, herra forseti, er ég ekki mjög hrifinn af þessum tillöguflutningi. Ég get ekki séð að okkur miði neitt áfram þó að fram komi slík tillaga.