Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:02:47 (1216)

2000-11-02 12:02:47# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er í mínum huga hugleiðingar, skoðanir á því hvað mætti gera og hvernig það kæmi út í skoðun miðað við eitthvað annað. Ég er ekki hér kominn til þess að blanda mér í áhersluatriði Vestfirðinga í vegamálum og styð þá heils hugar í öllum þeim málum sem varða bættar samgöngur til Vestfjarða.

Ég varð aftur á móti dálítið hrifinn af þeim hugmyndum sem koma fram í þessari tillögu, þá sérstaklega að grafa göng frá Ísafjarðarbotni og komast þannig fram hjá heiðunum, Þorskafjarðarheiði og Steingrímsfjarðarheiði, og þar með létta af þeim mikla farartálma sem þarna er á leiðinni. Við þekkjum það sem förum þessa leið að bara það að geta farið Þorskafjarðarheiðina á sumrin styttir ferðatímann jafnvel um klukkutíma, eða hálftíma til klukkutíma, í stað þess að þurfa að fara Steingrímsfjarðarheiðina. Þetta er einfalt dæmi.

Að grafa göng undir Eyrarfjallið er líka mjög mikið hagsmunamál í mínum huga og eitt af því sem menn hljóta að sjá fyrir sér að gerist í framtíðinni. En ekki er að þetta sé eitthvað sem sé á næsta leiti.

Í mínum huga hefur alla tíð verið einn af akkillesarhælum Vestfirðinga, og þá Ísafjarðar sérstaklega sem langstærsta svæðisins og bæjarins á Vestfjörðum, að samgöngur hafa verið erfiðar. Þær hafa batnað mjög mikið. En þær eru samt mjög erfiðar. Það er hægt með miklum kostnaði og á löngum tíma að stytta þessa leið um einn til tvo klukkutíma í akstri í dag ef allar styttingar sem mögulegar eru yrðu gerðar. Þá erum við að tala um frá Skutulsfirði, þverun Álftafjarðar, Hestfjarðar, Seyðisfjarðar og þaðan inn í Mjóafjörð og undir Eyrarfjall og þaðan undir fjallið og yfir í Kollafjörð. Þetta yrði algjör bylting. Það er gríðarlegt verk og mun taka langan tíma. En þetta yrði langmesta styttingin á leiðinni frá Ísafirði til höfuðborgarsvæðisins og forsenda þess í mínum huga að þarna verði blómleg byggð til langs tíma litið.

Ég vildi segja örfá orð um þetta mál vegna þess að mér rennur blóðið til skyldunnar og ég lít á þetta sem gott innlegg í umræðu. En forsenda þess að hægt sé að ná fram verulegum bótum í samgöngumálum Vestfirðinga er að sjálfsögðu samstaða þingmanna sjálfra. Og ég tek undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni.