Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:08:38 (1218)

2000-11-02 12:08:38# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:08]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Förum aðeins yfir þetta. Ég sagði áðan í ræðu minni að við vissum að það er góður hugur og mikill skilningur á því að menn vilja fara Arnkötludal. Við höfum mikinn skilning á því að það þarf að stytta leiðina fyrir sumarkeyrsluna og fara Þorskafjarðarheiðina. Við skiljum það mætavel. En við höfum verið sammála um það þingmenn að það væri svo mikið grundvallaratriði að koma byggðunum í heilsársvegasamband að það mætti ekkert trufla þá gjörð. Það væri svo brýnt, við hefðum svo litla peninga, tíminn væri svo naumur. Við höfum ekki viljað láta trufla okkur á nokkurn hátt. (Gripið fram í.) Það hafa verið tillögur um að taka Arnkötludalinn sem forgangsverkefni. Það hafa verið áskoranir með 800--900 undirskriftum. Við höfum líka fengið 800--900 undirskriftir til hvatningar þess að gera Þorskafjörðinn færan. Við höfum ekki viljað láta trufla okkur frá þessu meginverkefni þó hugurinn og tillögurnar séu góðar. Það liggur fyrir, og við höfum haft mikið fyrir því, að hafa Vestfirði inni í áætluninni um jarðgangagerðina. Það er mjög brýnt fyrir okkur að Vestfirðir séu þar.

Í okkar huga hefur það verið alveg ljóst að þegar þar að kemur væri langsamlega þýðingarmest fyrir byggðir Vestfjarða, fyrir allt atvinnulíf, fyrir alla þá mannlegu starfsemi sem þar er, ef okkur tækist að tengja saman Vestfirði norðanverða og vesturbyggðina, þ.e. Vestur-Barðastrandarsýsluna.

Því er núna verið að verja þeim takmörkuðu peningum, mjög takmörkuðum peningum, sem við höfum við rannsókna og undirbúnings jarðgangagerð, til þess að skoða og hefja undirbúning að jarðgangagerð milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Við höfum verið alveg sammála um þetta. Það eru litlir peningar í þessar rannsóknir, allt of litlir. (SvH: Þessi tillaga truflar ekkert þann framgang.) Það truflar þetta ef menn eru ekki alveg vissir um það hvernig þeir vilja raða hlutunum. Við viljum raða hlutunum svona og þess vegna hafa vestfirskir þingmenn staðið saman að þessu með sveitarstjórnarmönnunum.