Varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:21:03 (1221)

2000-11-02 12:21:03# 126. lþ. 19.2 fundur 47. mál: #A varanlegar samgöngubætur á Vestfjörðum# þál., PBj
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:21]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið um tillöguna og um margt ágætar undirtektir.

Upphaf aðgerða í samgöngumálum frá því hugmynd kemur fram fyrst og þangað til af framkvæmdum verður á sér æðilangan meðgöngutíma. Ég vil benda á að þó að hér hafi komið fram hjá sumum ræðumönnum að þetta sé ekki á dagskrá þýðir það ekki að rangt sé að taka það á dagskrá.

Ég gat áðan um hugmynd um jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Ég setti þá hugmynd fram í þinginu 1987. Eftir jarðgangaáætlun, sem ég fagna reyndar að er fram komin og er um margt mjög merkileg, þó að þar skorti á fjármagn eins og vert væri til að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd, eru horfur á að meðgöngutími þess verks geti, ef vel gengur, orðið eitthvað á þriðja áratug.

Ég ítreka að þess vegna er síður en svo ótímabært að koma með tillögu eins og þessa til að vekja athygli á einum möguleikanum enn. Hæstv. ráðherra segir að þetta komi á óvart. Það er kannski ekki ástæða til þess því þrátt fyrir að þetta hafi ekki verið með í þeirri skýrslu sem notuð var við úrvinnslu þegar jarðgangaáætlun var sett fram komu þessi mál samt inn í umræðuna á þingi. Flutningsmaður þessarar þáltill. kom með þá hugmynd í umræðuna og vakti athygli á þessari leið. Í framhaldi af því er þessi þáltill. síðan fram komin.

En ég veit að bæði flm. og mér og mörgum öðrum er ljóst að þetta er ekki hespað af í einum hvelli. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að með þessu sé verið að reka fleyg í samstarf þingmanna á Vestfjörðum. Því fer víðs fjarri. Eins og ég gat um áðan er það staðreynd að tíminn sem tekur að framkvæma tillögur af þessu tagi er geysilega langur og það er staðreynd að á Vestfjörðum eru samgöngur í rauninni lykilatriði búsetunnar.

Ég gat um það í framsögu að ég teldi allt of litlu fjármagni varið til jarðgangagerðar og mín skoðun er sú að gerð varanlegra samgöngubóta, eins og jarðganga og þverana fjarða, sé í rauninni landvarnir okkar Íslendinga og við þurfum út frá þeim grundvelli að stórauka fjárframlög til vegagerðar af þessu tagi.

Ég held að þingmenn Vestfjarða greini ekkert á um að tenging byggða er forgangsverkefni og þess vegna hlýtur að koma að því að heilsárssamgöngur verði milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar eins og hefur verið stefnt að, en ég vil líka vekja athygli á því að þegar tillagan um slíkt var lögð fram 1987 og aftur einu eða tveimur þingum seinna var ekki tekið undir þetta í umræðunni nema af þingmönnum Vestfjarða og þetta kom ekki á dagskrá þeirra aftur fyrr en á allra síðustu árum. Það er því æðilangur vegur sem þarf að fara.

Fyrir rúmum áratug, líklega 12--13 árum átti ég leið í Noregi frá Bergen til Hermansverk við Sognsfjörðinn. Þetta er létt dagsleið og ekki mjög löng. Þá var farið í gegnum 37 jarðgöng og ein ferjuleið var á þessari leið. Síðan er komið vel á annan áratug. Ég held að við þurfum að fara að huga einmitt að þessum þáttum í samgöngukerfi okkar meira en verið hefur og tek sérstaklega undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að það er forkastanlegt að eftir jarðgöngin á Vestfjörðum hafi ekki verið haldið áfram jafnt og þétt með jarðgangagerð í dreifbýlinu á vegum samgönguyfirvalda.

Hæstv. ráðherra sagði að ekki væri ástæða til að vekja falskar vonir með undirtektum við tillöguna. Þrátt fyrir að ég óski honum velgengni í starfi og þakki honum á margan hátt þann hug sem hann hefur til samgangna í dreifbýli, þá er ég ekki svo bjartsýnn að búast við því að þessi framkvæmd geti orðið í embættistíð hans. Mér er alveg ljóst að þetta mun taka sinn tíma.

Ég ítreka það, sem hefur komið fram í umræðunni, að hér er fyrst og fremst verið að benda á einn kostinn enn og jarðgangagerð er það dýr framkvæmd að ég tel fráleitt að fara í hana öðruvísi en að búið sé að kanna alla þætti sem hentugir eru og verði tekinn sá sem hagkvæmastur er. Könnunar- og undirbúningskostnaðurinn er þess virði að til hans sé mjög vel vandað.