Ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 12:56:53 (1226)

2000-11-02 12:56:53# 126. lþ. 19.3 fundur 55. mál: #A ferjuaðstaða við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum# þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[12:56]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen hefur eitthvað misskilið mín orð því ég talaði um farþega og bíla í sama orðinu. En ég tók það margsinnis fram að ég liti á vöruflutningana með allt öðrum hætti. Á farþegaskipi verða bílar auðvitað að fylgja með.

Ég fór með slíku loftpúðaskipi 1974 eða 1975. Þá gekkst frammámaður mikill í Vestmannaeyjum fyrir að slíkt loftpúðaskip var tekið á leigu. Síðan var siglt frá Reykjavík um sundin blá og ég tók mér far með skipinu. Ég minnist þess hve sérkennileg tilfinning það var að standa í stafni loftpúðaskipsins og bruna beint upp á land í Viðey. Þar var stoppað og allir farþegar löbbuðu í land og síðan var haldið sömu leið til baka.

Ég sagði það líka áðan að Katamaran eða tveggja skrokka skip eyðir miklu meira en loftpúðaskip. Loftpúðaskipin eru orðin feiknamikil skip. Þið hafið eflaust séð þau sjálf og vitið um umfang þeirra og möguleika á flutningum. Ég er ekki með neinum hætti að tefja málið og ætla ekki að leggja stein í götu þess enda er ég meðflutningsmaður.

Mér finnst að rannsóknin eigi að halda áfram en við eigum jafnhliða að líta alvarlega til þessa flutningsmáta. Þetta er slíkir möguleikar og gætu aukið enn frekar flýtimeðferðina í málinu ef ekki þarf að eyða einhverjum hundruðum milljóna í að byggja nýja hafnaraðstöðu. Það breytir málinu mjög.

Þetta var aðeins til leiðréttingar og ég legg áherslu á að málið haldi áfram og rannsóknin fari fram, bæði á sjólagi og ferð sandsins í fjörunni, en við eigum líka tvímælalaust að horfa á þessa möguleika.