Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 13:42:19 (1233)

2000-11-02 13:42:19# 126. lþ. 19.5 fundur 93. mál: #A flutningur eldfimra efna um jarðgöng# þál., Flm. GuðjG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Flm. (Guðjón Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um flutning eldfimra efna um jarðgöng. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Drífa Hjartardóttir.

Tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja reglur um flutning á eldfimum efnum (eldsneyti og própangasi) um jarðgöng.

Í reglunum verði m.a. kveðið á um hvort slíkir flutningar skuli leyfðir og þá með hvaða skilyrðum, þ.e. flutningstækjum, ökuhraða, eftirliti og hvort loka skal göngum fyrir annarri umferð meðan flutningurinn fer fram.

Umferð um jarðgöng var lengst af lítil hér á landi. Göngin voru fá og á leiðum þar sem ekki var mikil umferð. Fyrstu stóru göngin sem byggð voru, Vestfjarðagöngin, voru tekin í notkun í byrjun þessa áratugar og tengdu saman byggðirnar á norðanverðum Vestfjörðum. Umferð um jarðgöng margfaldaðist svo með tilkomu Hvalfjarðarganga sem voru opnuð fyrir umferð í júlí 1998. Almenn ánægja er með Hvalfjarðargöngin og óhætt að segja að einstaklega vel hafi tekist til og að þeir einkaaðilar sem árum saman börðust fyrir því að ráðist yrði í þessa framkvæmd, byggðu göngin og reka þau í dag, eigi heiður skilinn því án þrautseigju þeirra væru engin Hvalfjarðargöng.

Umferð um Hvalfjarðargöngin er miklu meiri en bjartsýnustu áætlanir gerðu ráð fyrir sem hefur leitt til stórlækkunar á gjaldtöku. Samkvæmt svari hæstv. samgrh. við fyrirspurn minni á síðasta þingi jókst umferð gífurlega um Hvalfjörð með tilkomu Hvalfjarðarganga. Árið 1997 fóru 747 þúsund bílar fyrir Hvalfjörð og með Akraborginni en árið 1999 fóru 94 þúsund bílar fyrir fjörð og 1.031 þúsund bílar um göngin eða 1.125.000 bílar alls. Umferðin jókst því um 51% á þessum tveimur árum.

Umferð um göngin er eðlilega misjöfn eftir mánuðum eða frá 50 þúsund og upp í 145 þúsund bíla á mánuði. Þessar tölur sýna okkur að vegfarendur hafa tekið göngunum vel og sem betur fer hafa ekki orðið alvarleg slys í umferðinni um göngin þó að orðið hafi að loka göngunum í örfá skipti vegna minni háttar óhappa.

[13:45]

Margir hafa þó áhyggjur af því að eldsvoði í göngunum gæti valdið stórtjóni og horfa þá til þeirra alvarlegu slysa sem orðið hafa af völdum elds í jarðgöngum erlendis á undanförnum árum. Flutningsaðilar eldfimra efna segja gjarnan að þeir séu með fullkominn öryggisbúnað og engin hætta sé á ferðum. Aldrei er þó of varlega farið og augljóst að erfitt yrði að snúa við stórum bensínflutningabíl í göngunum ef hann kæmi t.d. að bíl sem hefði kviknað í. Einn eldsvoði ofan í þessum djúpu göngum gæti valdið óbætanlegu tjóni eins og dæmin sanna erlendis frá. Þess vegna þarf að herða reglur um flutning eldfimra efna um göngin.

Það kom fram í fréttum sjónvarps sl. vetur að árlega eru flutt 180 tonn af própangasi frá Straumsvík til Grundartanga um Hvalfjarðargöng. Farið er vikulega og talsmaður gasfélagsins sagði í þeim fréttatíma að farið væri á morgnana og þeir væru búnir með báðar ferðirnar fyrir hádegi, eins og hann orðaði það. Það hrukku margir við sem heyrðu þessa frétt. Á morgnana er mikil umferð um göngin og fjöldi manns fer þar um daglega m.a. til vinnu eða í skóla og það er að mínu áliti fullkomlega fráleitt að leyfa gas- og bensínflutninga um göngin á þessum tíma sólarhrings. Reyndar finnst mér að ekki ætti að leyfa slíka flutninga samhliða annarri umferð um göngin og helst ætti að banna þá alveg.

Í gildi eru takmarkanir sem lögreglustjórinn í Reykjavík setti 19. júní 1998 um flutning á hættulegum farmi um Hvalfjarðargöng. Þær takmarkanir ganga allt of skammt. Þessir flutningar eru bannaðir á eftirgreindum tímum; frá kl. 10 á föstudögum til kl. 24 á sunnudögum allt árið, frá kl. 10 fimmtudaginn fyrir verslunarmannahelgi til kl. 24 að kvöldi þriðjudags eftir verslunarmannahelgi, frá kl. 10 miðvikudaginn fyrir páska til kl. 24 að kvöldi þriðjudags eftir páska og frá kl. 10 föstudaginn fyrir hvítasunnu til kl. 24 að kvöldi þriðjudags eftir hvítasunnu.

Vinnueftirlit ríkisins hefur bent á þá hættu sem stafar af flutningi hættulegra efna um Hvalfjarðargöng, einkum eldsneytisflutningum og flutningi á própangasi til stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga. Í bréfi stofnunarinnar til dóms- og kirkjumrh., dags. 8. maí sl., segir, með leyfi forseta:

,,Á fundum stjórnar Vinnueftirlitsins hefur komið til umræðu hvort nægar öryggisrástafanir séu gerðar vegna flutnings hættulegra efna um Hvalfjarðargöng. Einkum er átt við eldsneytisflutninga og flutninga á própangasi til stóriðjufyrirtækja á Grundartanga. Mál af þessu tagi eru ekki í verkahring Vinnueftirlitsins og því er þessu erindi beint til hæstv. dómsmrh.

Ljóst er að verði alvarlegt óhapp við eldsneytisflutning um göngin þannig að eldur komist í farm flutningabifreiðar mun mikil hætta stafa af fyrir alla sem í göngunum kynnu að vera. Flutningur própangass um göngin skapar enn meiri hættu ef slys ber að höndum. Reynsla erlendis sýnir að ef farartæki með slíkan farm lendir í óhappi getur hlotist af sprenging sem veldur gríðarlegu tjóni. Hættan eykst enn frekar ef óhapp á sér stað í lokuðu rými eins og göngin eru. Því ætti að koma til álita að heimila ekki slíkan flutning um göngin, a.m.k. á meðan þau eru opin fyrir annarri umferð.

Stjórninni er kunnugt um að settar hafa verið takmarkanir um flutning hættulegra efna um Hvalfjarðargöng með auglýsingu lögreglustjórans í Reykjavík í júní 1998 en þær taka einungis til þess á hvaða tíma sólarhringsins flutningurinn er heimill.

Vinnueftirlitið er reiðubúið til að veita sérfræðilega aðstoð varðandi þetta mál ef eftir því er óskað og eins að aðstoða við fræðslu lögreglumanna og gæslumanna.``

Dómsmrn. sendi afrit af þessu bréfi til lögreglustjórans í Reykjavík og Vegagerðarinnar 17. maí en þessi ótvíræða ábending Vinnueftirlits ríkisins hefur ekki orðið til þess að reglum um þessa flutninga hafi verið breytt.

Nú er það svo hvað Hvalfjarðargöngin varðar að það mundi ekki valda erfiðleikum að fara að þeirri ábendingu Vinnueftirlitsins að heimila ekki flutning hættulegra efna um göngin, a.m.k. á meðan þau eru opin fyrir annarri umferð, vegna þess að aðrir kostir eru til staðar. Það er ágætur vegur fyrir Hvalfjörð með lítilli umferð og því upplagt að flytja gas og eldsneyti landveginn. Þá má minna á að áður en göngin urðu til fluttu olíufélögin bensín sjóleiðina til Akraness og dreifðu því þaðan um allt Vesturland og jafnvel víðar. Olíufélögin eiga enn aðstöðu til slíkrar dreifingar á Akranesi. Þar sem umferð um Hvalfjarðargöng er jafnmikil og raun ber vitni getur það ekki talist góður kostur að loka þeim fyrir annarri umferð og hlýtur því að koma til álita að banna flutning á gasi og eldsneyti um göngin.

DV birti sl. vetur frétt um áhættumat á eldsvoða í Hvalfjarðargöngum sem unnið var af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens. Þar eru líkur leiddar að því að eldur geti komið upp í smábíl í göngunum á sex ára fresti og eldur í stórum bíl á 24 ára fresti. Ekki veit ég hvaða vísindi liggja að baki því mati en það er auðvitað stórhætta á því að slíkur eldur gæti valdið óbætanlegu tjóni. Þess vegna verður að mínu áliti að stórherða reglur um þessa flutninga og helst að banna þá.

En það er hins vegar ljóst að sömu reglur mundu ekki gilda fyrir öll jarðgöng. Það þarf að sjálfsögðu að taka tillit til umferðarþunga og þess hvort aðrar flutningsleiðir eru fyrir hendi. Þar sem þær eru ekki fyrir hendi mætti t.d. loka viðkomandi göngum á ákveðnum tímum meðan slíkir flutningar eiga sér stað.

Herra forseti. Ég hef áður sagt það hér á Alþingi og ítreka það nú að mér finnst flutningur á bensíni og gasi um Hvalfjarðargöng á sama tíma og opið er fyrir aðra umferð eins og rússnesk rúlletta. Eitt óhapp gæti valdið óbætanlegum skaða. Þess vegna tel ég að helst eigi að banna þessa flutninga alveg, alla vega stórherða reglur um þá.

Ég legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umr. vísað til samgn.