Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 13:56:36 (1235)

2000-11-02 13:56:36# 126. lþ. 19.5 fundur 93. mál: #A flutningur eldfimra efna um jarðgöng# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð síðasta ræðumanns um að flýta afgreiðslu þessa máls eins og mögulegt er. Það er hins vegar dálítið athyglisvert, eins og fram kemur í tillögunni, sem ég er meðflutningsmaður að, að Vinnueftirlit ríkisins hafi bent á þá hættu sem stafar af flutningi hættulegra efna um Hvalfjarðargöng, einkum eldneytisflutningum og flutningum á própangasi til stóriðjufyrirtækja á Grundartanga.

En hvers vegna hefur Vinnueftirlit ríkisins ekki meira vald en þetta? Sú mikla hætta sem af þessu stafar liggur ljós fyrir og Vinnueftirlitið bendir á hana, en ekkert gerist. Ég tek undir þau orð sem hér voru látin falla áðan að með ólíkindum sé að þetta skuli eiga sér stað.

Ég minnist þess þegar þessi umræða kom fyrst upp að fréttaflutningur kom frá olíufélögunum sem létu í veðri vaka að ef göngunum yrði lokað fyrir flutning eldsneytis þá mundi verð á eldsneyti á bifreiðar og hvers konar ökutæki hækka --- væntanlega þá bara á Akranesi og Borgarnesi. Sá málflutningur var með ólíkindum, að ef þyrfti að fara að keyra um Hvalfjörðinn með eldsneytið þá mundi eldsneytið hækka. En ég veit ekki betur en að þeir hafi svokallaðan flutningsjöfnunarkostnað þannig að það er náttúrlega mjög sérkennilegt að olíufélögin skuli bregðast við á þennan hátt.

Það sem hv. flutningsmaður kom hér inn á áðan í sambandi við áhættuþættina og möguleikana á að slys gætu gerst á einhverju ákveðnu árabili er náttúrlega, eins og hann sagði líka réttilega, lógík sem erfitt er að átta sig á og fóta sig á hverjar forsendurnar eru. En engu að síður eru allir sammála um að nokkur hætta sé á ferðum með því að hafa flutninga á olíu og gasi gegnum göngin með þeim hætti eins og nú er og á þessu máli þarf að taka.

Virðulegi forseti. Ég sem meðflutningsmaður og jafnframt nefndarmaður í samgn. mun auðvitað vinna að þessu máli eins fljótt og hægt er og fagna þeim umræðum sem hér fara fram og tek undir með síðasta ræðumanni um þá jákvæðu umræðu sem þetta mál fær hér strax.