Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:02:50 (1237)

2000-11-02 14:02:50# 126. lþ. 19.5 fundur 93. mál: #A flutningur eldfimra efna um jarðgöng# þál., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég er einn af meðflm. þessarar ágætu þáltill. sem varðar í rauninni marga þætti en sérstaklega er mér þó í huga umferðaröryggisþátturinn, einnig sem starfandi formaður núna í starfshópi um umferðaröryggismál. Þar hefur einmitt þessi mál borið á góma, þ.e. hvernig hægt er að taka á þeim erfiðu og miklu þungaflutningum um Hvalfjarðargöngin. Því tel ég afar mikilvægt að þessi þáltill. nái fram að ganga á hinu háa Alþingi því að í raun hefur það margoft komið fram í ræðum hv. þingmanna hér á undan að slíkir flutningar eru hættulegir. Við vitum af þeirri hættu sem stafar af þeim og því verðum við að grípa til ákveðinna aðgerða þannig að við lendum ekki í erfiðum slysum eða í súpunni eftir einhver ár.

Það skiptir því mjög miklu að við tökum nú þegar á málinu. Búið er að tala um og benda á bréf frá Vinnueftirliti ríkisins þar sem segir m.a., með leyfi forseta: ,,Ljóst er að verði alvarlegt óhapp við eldsneytisflutning um göngin þannig að eldur komist í farm flutningabifreiðar mun mikil hætta stafa af fyrir alla sem í göngunum kynnu að vera.`` Ég endurtek: ,,... mun mikil hætta stafa af fyrir alla sem í göngunum kynnu að vera.``

Ég held að þessi orð vegi afar þungt og við verðum að huga að því hvaða reglur eigi að setja um umferð þungaflutninga með hættuleg efni um göngin. Það er aldrei of varlega farið í umferðaröryggismálum og í þessu máli má náttúrlega aldrei leika vafi á að umferðaröryggi beri að setja á oddinn fyrir alla á þessu svæði.