Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:35:33 (1247)

2000-11-02 14:35:33# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er mér ljúft og skylt að segja það aftur að ég vissi um það, hafði munnlega frásögn af flugráðsfundinum um að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefði setið þar hjá. Það kemur ekki fram í gögnum flugráðs, því miður, en það sem ég vildi segja hér og nú er akkúrat það sem hv. þm. gat um í restina, að þegar hann var í sölum hins háa Alþingis og fjallaði um þetta mál m.a. í samgn. þá stóð hann að meirihlutasamþykkt samgn. um að þessi flugmiðaskattur yrði tekinn upp og hv. þm. samþykkti að leggja á flugmiðaskatt hér á hinu háa Alþingi sem er að skila 30--40 millj., e.t.v. 50 millj. á næsta ári í ríkiskassann en sem sóttur er beint í vasa þeirra sem ferðast með flugi innan lands. Flugmiðaskatturinn er með öðrum orðum kominn á fyrir tilstilli og með samþykki hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. (GHall: Meðal annarra.) Já.