Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:44:42 (1250)

2000-11-02 14:44:42# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er ákaflega hrifinn af frjálsri samkeppni, ég geri mér grein fyrir því, og vill jafnvel hafa hana frjálsari en nokkur þjóð með frjálsa samkeppni í kringum okkur hefur hana.

Ég er að tala um að rammi verði að vera um starfsemi og menn verði að átta sig á því til hvers hlutirnir leiða. Í þessu litla landi okkar upp á 280 þús. manns gefur það augaleið að frjáls samkeppni hefur ekki leitt til þeirra ávinninga sem menn telja að hljótist af, miðað við hvernig efnahagskerfi stærri þjóða er. Ég veit ekki betur en hér í þingsölum hafi verið upphrópun á síðustu dögum út af fákeppni við skulum segja olíufélaganna og við skulum segja tryggingafélaganna. Var ekki verið að biðja um skýrslu af hv. samflokksþingmönnum hv. þm. út af stöðu tryggingafélaganna? Þar er samkeppni en þar er fákeppni vegna stöðu hins íslenska markaðar og það er það sem ég var að benda á.

Ég ætla ekki að fara út í stöðu félaganna sem slíkra. Ég veit ekki betur en það félag sem fór í samkeppni við þetta félag sem hafði verið þá rekið að mati þingmannsins á hausnum allan tímann, hafi verið það sem púkkað hafi verið undir en ekki gamla félagið sem, eins og hv. þm. segir, hefur verið rekið um áraraðir með tapi.