Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 14:58:44 (1254)

2000-11-02 14:58:44# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. samgrh. fyrir að vera viðstaddur umræðuna og þau orðaskipti sem við höfum átt út af þessum flugmiðaskatti.

Í ræðu hans eru ýmis atriði sem vert væri að fara í gegnum en ég hef ekki tíma til þess núna í stuttu andsvari og mun því þess vegna koma að þeim síðar í ræðum mínum. Hæstv. samgrh. fullyrðir að flugmiðaskatturinn sé aðeins 76 kr. á farþega í flugi til Akureyrar. Í flugi til Akureyrar, þ.e. ein ferð með Fokker Friendship, þarf að borga tæpar 5.500 kr. í flugmiðaskatt fram og til baka. Ef maður deilir þessu niður sjáum við hvað kemur út. Ef við tökum dæmi af flugi til Egilsstaða, þá er þessi skattur tæpar 8.500 kr., 8.200--8.300 kr. Þessi skattur er gott betur meira en nokkrar 76 kr. sem hér er verið að fjalla um, ætli þetta nái ekki frekar hinni margfrægu tölu 157 kr. eða svo. Það er svipað og ellistyrkurinn hækkaði hjá öldruðum 1. apríl sl. Fram hefur komð að ýmsir í hópi hinna öldruðu héldu að þetta væri aprílgabb, en það er annar handleggur, þetta er svona til að tala um hvaða tölur þetta eru. Vafalaust eru þetta mjög litlar tölur í okkar huga, tölur sem skipta ekki neinu máli, þetta eru smáaurar sem menn tína jafnvel stundum upp úr vösum sínum, en safnast þegar saman kemur.

Það sem stendur upp úr er það að Flugfélagi Íslands verður gert að greiða á næsta ári 40--45 millj. kr. í flugmiðaskatt vegna flugs síns. Það er það sem stendur upp úr. Síðan getum við leikið okkur að því að deila og margfalda og allt það. En ég mun koma inn á ýmis önnur atriði í ræðu hæstv. samgrh. hér á eftir.