Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:00:42 (1270)

2000-11-02 16:00:42# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta en vil bara árétta þá skoðun mína að ég tel að mikilvægi Reykjavíkurflugvallar sé mjög mikið og eins og ég sagði áðan í ræðu minni bæði fyrir innanlandsflugið og ekki síður fyrir öryggi borgaranna í Reykjavík. Það er mjög mikilvægt út frá landfræðilegri legu borgarinnar á nesi að hér séu möguleikar á að komast í burtu loftleiðis. Ég er innilega sammála hæstv. samgrh. hvað það varðar.

Að síðustu vil ég árétta að það er mjög mikilvægt, í þeim uppbyggingarfasa sem er í gangi á Egilsstöðum og á Akureyri varðandi flug frá útlöndum og vonina um að geta eflt það, að við sitjum á þessum stöðum við sama borð og flugstöðin í Keflavík. Ég heyri að hæstv. ráðherra hefur góð áform og ég mun styrkja hann í einu og öllu í því með því afli sem ég á til og félagar mínir til þess að svo megi verða.