Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:02:10 (1271)

2000-11-02 16:02:10# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:02]

Flm. (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Nú þegar komið er að lokum þessarar umræðu um þetta frv., sem við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar höfum flutt um að afnema hinn svokallaða flugmiðaskatt, vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa verið hér og tekið þátt í þeirri umræðu þannig að við höfum getað skipst á skoðunum um það sem við erum hér að deila um og ég vil líka þakka öllum hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni fyrir þeirra innlegg.

Það er náttúrlega alveg ljóst og kom fram í ræðu hæstv. samgrh. að það væri óviðeigandi af mér eða okkur að vitna í samtöl sem áttu sér stað á fundi samgn. með fulltrúa ráðuneytisins. En ég þarf ekki eingöngu að vitna í þau samtöl vegna þess að á einum stað í umsögn Flugleiða og dótturfélags þess, Flugfélags Íslands, sem kom fram á fundinum 19. ágúst 1999 þar sem þessi flugmiðaskattur var kynntur í fyrsta skipti fyrir flugrekendum, kom fram, eins og segir orðrétt í þeirra greinargerð, að þetta væri aðeins fyrsta stig slíkrar innheimtu. Á það vil ég leggja þunga áherslu. Það kom fram m.a. hjá fulltrúum Flugmálastjórnar þegar þeir áttu fund með hv. fjárln. Þá kom þar fram áætlun og þar var skýrt frá þessu eins og þetta var hugsað í byrjun. Hugsunin var sú að ná í meiri peninga en þessar 30 milljónir í ár og 40 eða 50 milljónir á næsta ári.

Herra forseti. Það er mjög gott að stjórnarsinnar eru á flótta frá þessum flugmiðaskatti og það er vel. Það er vel ef þessi umræða hefur orðið til þess að hæstv. ríkisstjórn mun hætta við að seilast ofan í vasa flugfarþega og ná í meiri og hærri flugmiðaskatt eins og ætlunin var. Og ég hika ekki við að halda því fram og ætla ekki að draga það til baka að það var ætlunin, eins og kom fram, að þeir sem nota þessa þjónustu eigi að greiða hana.

Herra forseti. Það hefur komið hér fram að þegar sjálfstæðismenn leggja á nýja skatta þá er það kallað kostnaðarvitund. Og það kom fram í máli hæstv. samgrh. að með því að ná í 40--50 milljónir í skatt þá ætti kostnaðarvitund flugfarþega að aukast mikið. Ég gef nú ekki mikið fyrir þennan málflutning. Ég verð að segja það alveg eins og er. Þetta er ekkert annað en skattur. Þetta er flugmiðaskattur sem sóttur er beint til þeirra sem nota flugið.

Það er líka athyglisvert, herra forseti, að inni í þessari umræðu hér í dag hefur ekki einn einasti framsóknarmaður tekið til máls sem er þó ... (Gripið fram í: Þeir skammast sín.) Þeir skammast sín e.t.v. Já, það væri vel ef hv. framsóknarmenn skömmuðust sín. Þeir ættu að skammast sín fyrir þennan flugmiðaskatt sem jafnframt er landsbyggðarskattur eins og aðgerðir þeirra í byggðamálum. Það er alveg hárrétt. Það er kannski eðlilegt að þeir fari úr húsi og láti ekki sjá sig og taki ekki þátt í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað.

Hv. þingmenn hafa ýmsum skyldum að gegna. Það er alveg hárrétt. Meðal annars veit ég að margir þeirra eru vafalaust á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. En það afsakar það ekki að þeir sem bera ábyrgð á þessum skatti, t.d. þeir sem sitja í hv. samgn., eru ekki hér viðstaddir og taka ekki þátt í umræðum.

Hér hefur líka komið fram hjá hæstv. ráðherra að hann gerði lítið úr samanburði á flugfargjöldum innan lands og utan lands í frv. Það kemur hér fram að fargjöld milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar kosta tæpar 25 þús. kr. á dýrasta fargjaldi. Og það kemur fram að það er hægt að fara með nettilboði hjá Flugleiðum til Barcelóna fyrir 17.200 kr. Það kemur líka fram, af því að menn vilja ekki nota nettilboð, að ef menn kaupa sér ferð til Amsterdam bara á venjulegu verði þá kosti það ekki nema 27 þús. kr., herra forseti. Það kostar 27 þús. kr. Það er með öðrum orðum 2 þús. kr. dýrara að fljúga á venjulegu fargjaldi til Amsterdam en að fljúga á venjulegu fargjaldi frá Reykjavík til Vopnafjarðar.

Fullyrðingar hafa komið hér fram og við áttum orðastað, ég og hæstv. samgrh., um hvað þessi skattur leiðir af sér, hvað það er í krónum á hvern farþega o.s.frv. Við getum endalaust haldið áfram að deila um það. Það er hins vegar rétt, og það stendur upp úr, að það þarf að borga 8.200 kr. í skatt fyrir hverja einustu flugferð á Fokker Friendship vélum frá Reykjavík til Egilsstaða og aftur til baka. og það kostar 4.500 kr. að fljúga á sömu flugleið með 19 sæta flugvél. Ef við deilum þessu svo niður á farþega þá getum við alveg leikið okkur að tölum, 350--500 og 900 kr. Það er t.d. alveg ljóst að ef tíu, við skulum segja ellilífeyrisþegar, taka sér far með 19 sæta vél til Egilsstaða þá er skatturinn u.þ.b. 5% af heildartekjum flugfélagsins á þeirri flugleið ef hver ellilífeyrisþegi væri að borga í kringum 8 þús. kr. Og ef það væri nú ekki nema helmingurinn af þeim þá getum við reiknað það út.

Grundvallaratriðið er bara þetta: Flugfélag Íslands áætlar að það þurfi að borga 40--45 millj. kr. í flugmiðaskatt á næsta ári. Það stendur upp úr.

Ég get tekið undir það með hæstv. samgrh. og er sammála honum í því að það hefur átt sér stað stefnubreyting í ríkisstjórninni. Það átti sér stað stefnubreyting í ríkisstjórninni gagnvart innanlandsflugi eftir þá utandagskrárumræðu sem við áttum í vor sem kom upp í framhaldi af því að Íslandsflug hætti að fljúga innan lands á áætlunarflugleiðum. Þá er ákveðið í hæstv. ríkisstjórn að fara í útboð á ákveðnum flugleiðum til minni staða á landsbyggðinni og tengja það sjúkrafluginu. Ég er alveg hjartanlega sammála þessari leið og það er rétt sem hér hefur komið fram, að stefnubreyting varð í ríkisstjórninni og henni ber að fagna.

En það ber ekki að fagna þeirri miðstýringaráráttu sem kemur fram frá hæstv. ríkisstjórn í því að skattleggja flugrekendur, skattleggja flugfélögin og styrkja þau svo e.t.v. daginn eftir. Þetta er miðstýringarárátta sem ég hefði haldið að kæmi ekki frá fulltrúum Sjálfstfl. á Íslandi. Ég hefði haldið að Jeltsín og aðrir karlar austur í Rússlandi gætu haft uppi þessi áform og þessar aðferðir og þess vegna finnst mér miður að það skuli vera tekið hér upp.

Hæstv. samgrh. fór líka nokkrum orðum um samstöðuleysi, eins og hann sagði, okkar vinstri manna. Hann var eitthvað að gera því skóna að við jafnaðarmenn á Alþingi og félagshyggjumenn eða jafnaðarmenn og félagar okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði værum ekki sammála og e.t.v. hefur hann átt við þau orðaskipti sem urðu hér milli tveggja hv. þm. áðan út af samkeppni í flugi. Hann talar um samstöðuleysi okkar í þessum efnum. Mér varð nú bara hugsað til ályktunar sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, þó ég ætli nú ekkert að leggja neinn dóm á þá ályktun, flokksfélaga hæstv. samgrh. í Vestmannaeyjum sem var nú ansi harðorð um það hvernig staðið var málum með Herjólf. En það ætla ég ekki að gera hér að umræðuefni. En ályktun sjálfstæðismanna varð til þess að maður fór að leggja eyru við. Það er nú ágreiningur meðal sjálfstæðismanna vegna þessa máls. Það skyldi nú ekki vera ágreiningur milli sjálfstæðismanna á hv. Alþingi um flugmiðaskattinn, þó að hann komi ekki hér fram.

Ég held að þessi skattur sé mistök. Það voru algjör mistök að leggja hann á og menn eiga hiklaust að viðurkenna þau mistök og fella þennan skatt úr gildi.

Ég vildi aðeins draga inn þessar ályktanir frá sjálfstæðismönnum í Eyjum vegna þess að það getur líka hitt menn illa fyrir þegar þeir tala um samstöðuleysi hjá stjórnarandstæðingum eða leiða líkur að því.

Herra forseti. Hér hefur líka orðið mikil umræða um samkeppnina sem var í fluginu sem upphófst 1997 þegar sérleyfin voru afnumin. Þá hófst mikið stríð og flugfargjöld lækkuðu. Að mínu mati dó sú samkeppni fyrst og fremst vegna þess að Flugfélagi Íslands, sem var ráðandi á markaðnum, leyfðist að lækka fargjöldin sín um leið og þessi samkeppni hófst og elta þar með lág flugfargjöld Íslandsflugs. Ef leikreglur væru eins á Íslandi og erlendis hefðu þeir ekki mátt lækka verðið og þetta hefði farið allt öðruvísi. Til þess að samkeppni verði á markaðnum þarf annar aðilinn sem er að hefja starfsemi að hafa möguleika á að koma sér þar fyrir. Erlendis hafa fallið þungir dómar í svona málum og heilu flugfélögin hafa farið á hausinn vegna þess að þau brugðust rangt við og voru dæmd í sektir vegna slíkra mála. Og það má alveg spyrja hvort Samkeppnisstofnun hefði ekki átt að grípa inn í þessa atburðarás á sínum tíma. Það má líka spyrja sig hvers vegna Flugfélag Íslands var ekki búið að lækka flugfargjöld löngu áður? En það var auðvitað vegna þess að þeir gátu það ekki vegna þess að hér hefur komið fram að íslenskir flugrekendur í innanlandsflugi hafa verið að tapa um einum milljarði síðustu þrjú ár.

Herra forseti. Umræðan um þetta mál hefur verið nokkuð lífleg og góð. Hér hefur komið mjög skýrt fram mikill munur á afstöðu okkar þingmanna Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarflokkanna og þeirra þingmanna sem styðja hæstv. ríkisstjórn og hæstv. samgrh., til þessa flugmiðaskatts. Við viljum að hann verði lagður niður. En mér heyrist að stjórnarsinnar vilji halda í þennan flugmiðaskatt. En ég ítreka það sem ég sagði hér áðan: Ég held að við höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg vegna þess að mér heyrist að hv. stjórnarsinnar séu komnir, eins og ég sagði áðan, á flótta frá þessu máli, að menn komi þá a.m.k. í veg fyrir frekari hækkanir og vonandi þá frekar að þessi skattur lækki þegar fram líða stundir.