Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:17:55 (1273)

2000-11-02 16:17:55# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt í upphafi máls hæstv. samgrh. að nýtt mál hefði verið tekið á dagskrá. Ég hélt, virðulegi forseti, að á dagskrá væri komin almenn áætlun um samgöngumannvirkja- og flugvallagerð. Ég spurðist fyrir um það og fékk upplýsingar um að svo væri ekki.

Ég segi eins og er, virðulegi forseti, að ég get tekið undir umbætur í samgöngum og held að þar geti ég talað fyrir munn Samfylkingarinnar í heild sinni. Við styðjum uppbyggingu mannvirkjagerðar á Íslandi að því er varðar flugsamgöngur. Við styðjum þessi mál alveg klárlega og að þær flugleiðir sem eiga undir högg að sækja verði styrktar.

Kjarni málsins er hins vegar sá að við styðjum ekki að áður en ráðist er í þessa uppbyggingu þá sé reynt að drepa flug til þessara staða með álagningu flugmiðaskatts. Um það snýst málið. Við höfum boðið upp á það í þessari umræðu, virðulegi forseti, að hjálpa hæstv. samgrh. við að leiðrétta þau mistök sem áttu sér stað. Það hefur komið fram í þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag að það eru engin ásættanleg rök fyrir málinu. Ég tel að það að breytingin mundi auka kostnaðarvitund eins og hæstv. samgrh. bar fyrir sig, sem kannski var eina tilraun hans til röksemdafærslu í málinu, gangi vitaskuld ekki upp þegar það er útfært með þeim hætti sem hér er gert.

Virðulegi forseti. Ég vil samt sem áður þakka hæstv. samgrh. fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu. Það hefur ýmislegt skýrst í þessu en um leið vil ég bjóða honum liðsinni mitt til að koma okkur út úr þessum ógöngum sem hæstv. samgrh. kom sér í í fyrra. Samfylkingin er vissulega tilbúin til að leggja lið til þeirrar baráttu.