Loftferðir

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:20:05 (1274)

2000-11-02 16:20:05# 126. lþ. 19.4 fundur 56. mál: #A loftferðir# (leiðarflugsgjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í umræðunni áðan að ég fagnaði öllum stuðningi. Það er sama hvaðan gott kemur ef menn ganga til stuðnings af heilum hug.

Ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að segja hér nokkur orð í lokin er hins vegar sú umræða sem hér hefur farið fram í dag um innanlandsflugið. Hv. þm. Samfylkingarinnar hafa talað eins og ekkert væri unnið að uppbyggingu innanlandsflugsins. Ég taldi nauðsynlegt að hafa þessa kennslustund hér og rifja upp stöðu mála fyrir hv. þm. Ég heyri að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson tekur því afskaplega vel og við gætum sjálfsagt rætt þetta nokkuð lengi dags.

Aðalatriðið er að það er vöxtur í innanlandsfluginu og það er eðlilegt að við bætum mannvirkin og þjónustuna. Það er í fyllsta mála eðlilegt að flugfélögin, þegar þau annars vegar eru rekin með hagnaði og fá hins vegar ríkisstyrki, taki með eðlilegum hætti þátt í þeim útgjöldum sem hið opinbera verður að leggja til svo sinna megi þessum þætti samgöngumála.