Heilsuvernd í framhaldsskólum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 17:18:31 (1288)

2000-11-02 17:18:31# 126. lþ. 19.7 fundur 91. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[17:18]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sleppti honum og lýsa einnig yfir eindregnum stuðningi við þessa þáltill. og vona að hún fái skjóta meðferð og umfjöllun í þinginu og verði samþykkt hið allra fyrsta. Eins og komið hefur fram er hér kveðið á um að efla heilsuvernd í framhaldsskólum, heilsuvernd fyrir ungt fólk og þar er vísað til forvarnastarfs, meðferðar og stuðnings af ýmsu tagi. Komið hefur fram við umræðuna að þar sem boðið hefur verið upp á slíkan stuðning, t.d. í Ármúlaskólanum í Reykjavík, hefur eftirspurnin verið mikil og það vekur athygli eins og kemur fram í grg. að unglingarnir leita eftir aðstoð vegna kvíða og þunglyndis en einnig líkamlegra kvilla.

Ég vil hrósa flm. fyrir mjög vandaða grg. sem fylgir þáltill., hún er fróðleg og vönduð í senn. Ég spyr sjálfan mig þeirrar spurningar hvort tillagan ætti eða hefði átt að vísa einnig í grunnskólastigið. Að sönnu er það svo að þar er eftirlit með heilsufari barna og unglinga í mun fastari skorðum en á framhaldsskólastiginu en spurning þó hvort hægt sé að bæta það enn frá því sem nú er, sérstaklega hvað varðar alla aðstöðu í skólunum.

Þar er það tvennt sem mig langar til að gera að umræðuefni. Í fyrsta lagi er það kerfi sem við búum við í sambandi við tannlækningar og eftirlit með tannheilsu í eins konar millibilsástandi. Menn hafa rætt það, ekki síst á Reykjavíkursvæðinu þar sem aðstaða er í mörgum skólum til slíks eftirlits, hvernig beri að nýta en þegar ég vakti máls á þessu á síðasta þingi kom fram að verst væri ástandið hjá tiltölulega fámennum hópi barna og unglinga. Kunnáttumenn í þessum efnum töldu brýnast verkefni að finna þennan hóp barna og unglinga sem væri með slæmar tennur og fengi ekki nauðsynlega aðhlynningu. Ég hef verið talsmaður þess að aðstaðan í skólunum væri nýtt til þessa.

Í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram um eftirlit með tannheilsunni kom fram að aðstaða er mjög mismunandi eftir því hvar er á landinu. Hún hefur verið betri á þéttbýlissvæðinu en hún hefur verið annars staðar. Að vísu kom fram að ágæt aðstaða er víða á landinu. Utan Reykjavíkur er aðstaða til tannlækninga á 48 stöðum þar sem sjálfstætt starfandi tannlæknar vinna m.a. við tannlæknaþjónustu grunnskólabarna. Ég ætla ekki að vísa nánar í svarið sem ég fékk á þeim tíma en vil aðeins vekja athygli á þessu atriði.

Hitt atriðið sem ég vil nefna og tengist reyndar hinu fyrra er sú staðreynd að í skýrslu sem landlæknisembættið gekkst fyrir fyrir nokkrum árum, á fyrri hluta 10. áratugarins, kom fram að þess væri farið að gæta að efnalítið fólk leitaði ekki læknis vegna kostnaðar, það kostaði of mikið. Sérstaklega var þetta reyndar í tannlækningunum en þetta ætti einnig við um önnur svið.

Þetta nefni ég til að árétta mikilvægi þess að efla forvarnastarf og eftirlit í skólum, að finna þá einstaklinga sem ekki fá nægilega þjónustu eða nauðsynlegar lækningar, aðstoð eða aðhlynningu og ég held að ef vel er að þessu starfi staðið í skólakerfinu, þá sé það vel. Ég tel tvímælalaust að hér sé verið að undirbúa nauðsynlegar umbætur, að við stígum skref fram á við og styð því þessa tillögu.