Almannatryggingar

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:04:57 (1294)

2000-11-02 18:04:57# 126. lþ. 19.9 fundur 102. mál: #A almannatryggingar# (búsetuskilyrði örorkutryggingar) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:04]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar hvað varðar biðtíma, biðtíma eftir því að fá rétt í íslenska almannatryggingakerfinu fyrir þá sem flytja til landsins.

Biðtíminn er settur inn í tryggingakerfið til þess að koma í veg fyrir að stór hópur manna komi til landsins og nýti sér þennan rétt sem er veittur án iðgjalda og án tillits til þjóðernis eða ríkisfangs og hann er eingöngu bundinn við búsetu í landinu.

Í gegnum tíðina hafa komið hingað til lands útlendingar í alls konar tilvikum, þ.e. bæði útlendingar sem hafa gifst Íslendingum, það eru útlendingar sem hafa unnið í síld hér áður fyrr og það eru t.d. Pólverjar sem núna eru svo hundruðum skiptir, eða þúsundum, í vinnu hér á landi.

Herra forseti. Laun í heiminum eru afskaplega lág og íslensk laun eru afskaplega há í augum margra sem eru úti um allan heim. Þó okkur þyki lífeyrir frá almannatryggingum lágur og það sé sífellt verið að kvarta undan honum, er hann himinhár miðað við laun í mörgum löndum. Ég nefni t.d. Pólland.

Fólk sem hefur einhvern tímann haft rétt hér á landi og búið hér í þrjú ár eða tvö og hálft ár gæti komið hingað ef það verður öryrki heima hjá sér, og átt rétt eftir hálft ár til þessa himinháa lífeyris í þeirra augum.

Ég vil að menn gangi afskaplega hægt um gleðinnar dyr í því að vera góðir við alla út um allt vegna þess að það lendir að sjálfsögðu á íslenskum skattgreiðendum ef hingað koma þúsundir manna til að njóta örorkulífeyris. Það eru sífellt meiri líkur á því eftir því sem meira er flutt inn af erlendum farandverkamönnum að þeir njóti áfram örorkulífeyris í sínu heimalandi hér á Íslandi.

Öll félagsleg kerfi eru misnotuð með sama hætti og skattkerfin, þ.e. að menn svíkja undan skatti. Það er nú vandinn við félagslegu kerfin. Ef ekki væri um misnotkun að ræða þá mætti búa til virkilega góð félagsleg kerfi. Við höfum fullt af dæmum um misnotkun. Ég býst við því að margir hv. þm. þekki fólk sem býr saman en býr ekki saman á pappírunum og nýtur kjara sem einstæðir foreldrar. Þetta eru afskaplega algeng bótasvik.

Ef útlendingar eignast rétt með þessum hætti hér á landi þá er það bara allt að því eðlilegt að þeir komi hingað, leigi sér húsnæði eins og þeir eru vanir í sínu heimalandi, eitt herbergi eða eitthvað slíkt, eða jafnvel heila íbúð og njóti húsaleigubóta að auki, og setjist hér að og njóti þess háa lífeyris, í þeirra augum, sem við erum að greiða hér á landi. Ég vil því vara menn mikið við.

Mér finnst öll þróun almannatrygginga bera einmitt keim af þessu. Menn eru alltaf að laga einn og einn enda, einn og einn skanka. Það er aldrei tekið heilsteypt á öllu kerfinu, hvernig við ætlum að hafa kerfið í heild sinni, enda ber það þess merki. Það er orðið svo flókið og útjaskað, órökrétt og vitlaust að það er með fádæmum. Sem dæmi þá borgar Tryggingastofnun yfir 130 tegundir lífeyris. Og fólk sem þarf að njóta bóta frá almannatryggingum á í miklum vandræðum með að finna út úr því hvar það á rétt og hvernig.

Það eru margir aðrir vankantar á almannatryggingakerfinu, t.d. það einkenni á Íslendingum, einum þjóða sem ég þekki til, að verða annaðhvort 100% öryrkjar eða ekki neitt. Menn eru annaðhvort úrskurðaðir 75% öryrkjar og þá fá þeir 100% örorkulífeyri eða þeir fá engan örorkulífeyri. Það er ekki til 68% örorkulífeyrir þar sem gert er ráð fyrir að því maðurinn geti unnið 32%, hafi 32% starfsorku eins og er víðast hvar annars staðar þar sem ég þekki til. Þetta gerir það að verkum að öryrkjar eiga í vandræðum vegna þess að þeir eru annaðhvort 100% öryrkjar eða ekki neitt og þó að töluverð starfsorka sé eftir hjá þeim mega þeir ekki vinna. Það dregst frá lífeyrinum. Þetta væri ekki til staðar ef við borguðum 68% lífeyri. Þá mættu menn vinna 32%. Þetta er eitt vandamál.

Í greinargerðinni kemur fram að það sé ákveðin sjóðssöfnun í almannatryggingakerfinu en svo er að sjálfsögðu ekki, heldur er það borgað með sköttum beint. Þannig er afkoma þeirra sem eru hjá almannatryggingakerfinu, og það er gallinn við kerfið, háð afkomu þjóðfélagsins og vilja meiri hluta kjósenda. Upp getur komið sú staða einhvern tímann í framtíðinni, ef þetta verður of þungur baggi á þjóðfélaginu, að vilji kjósenda standi til þess að borga ekki háan ellilífeyri, að einstaklinghyggjan, sem hér hefur komið fram í umræðum um almannatryggingakerfið, verði ríkjandi. ,,Við skulum ekki borga neitt nema fyrir okkur sjálf.`` Þetta er hætta sem almannatryggingakerfið stendur frammi fyrir. Þess vegna væri eðlilegra að byggja upp réttindi sem byggja á sjóðssöfnun í almannatryggingakerfinu og það er hægt. Það er hægt að breyta almannatryggingakerfinu í lífeyrissjóð þeirra sem ekki hafa tekjur og ríkissjóður borgi iðgjald inn í það kerfi fyrir þá sem ekki hafa tekjur.

Ég nefni þetta vegna þess að það þarf að gera miklar breytingar á almannatryggingakerfinu. Það er mjög nauðsynlegt að gera það einfaldara og rökréttara.

Inn í þetta spilar fjöldinn allur af kerfum. Við erum með skattkerfi. Þar eru bótaákvæði, um barnabætur og vaxtabætur. Við erum líka með 66. gr. í skattkerfinu um endurgreiðslu á skatti til þeirra sem eiga bágt. Við erum með skaðabótalögin. Við erum með húsaleigulögin. Við erum með lög út um allt sem mynda þetta velferðarkerfi okkar og þetta er allt of flókið. Menn mega ekki heykjast á því vegna þess hve kerfið er flókið að taka á því í heild sinni. Menn verða að taka á því í heild sinni þó það sé flókið.

Herra forseti. Þessi tillaga kann að eiga rétt á sér. Hún kann að vera rökrétt. Það getur verið að þetta sé eðlilegt miðað við þróun í öðrum löndum. En ég vil vara við því að menn taki þetta of létt og ætli að vera of góðir vegna þess að það getur komið í kollinn á okkur seinna að kerfið verði opnað fyrir misnotkun og þá verið erfiðara að bakka út úr því en nú.

Þess vegna vil ég að menn skoði almannatryggingakerfið í heild sinni, heildstætt, og vinni að því að koma með heildstæða breytingu á þessum tryggingakerfum öllum og samspili þeirra við lífeyrissjóðina og samspili þeirra við skattkerfið.