Bætt staða námsmanna

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:40:56 (1303)

2000-11-02 18:40:56# 126. lþ. 19.16 fundur 189. mál: #A bætt staða námsmanna# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:40]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. talar með hroka til þess fólks sem vinnur í landinu og borgar skatta af tekjum sínum sem renna til þessa kerfis. Það er fjöldinn allur af einstæðum mæðrum með tvö börn úti í þjóðfélaginu sem vinnur myrkranna á milli, fyrst á vinnustað og síðan heima hjá sér, og þarf að borga skatta af kannski 120, 130 þús. kr. tekjum á mánuði og fá skertar barnabætur því að þær eru sumar hverjar með of háar tekjur. Og þær sjá ekki slíkt ráðstöfunarfé. Þær sjá ekki 206 þús. kr. á mánuði allt árið í kring sem ráðstöfun.

Þær sjá 100 þús. kr. á mánuði og þær þurfa að lifa af því með tvö börn. Og það er þetta sem ég er að benda á. Það er þessi mismunur á milli þeirra sem greiða --- og ég ætla að vona að hv. þm. virði það fólk líka þó að það sé verkamenn og verkakonur og þvottakonur og slíkt --- það fólk er að greiða þetta kerfi sem gefur 206 þús. kr.

Það getur vel verið að einhverjir agnúar séu á þessu kerfi til námsmanna. En menn þurfa að líta á alla kommóðuna. Ég mótmæli því að hv. þm. sagði að ég liti á eina skúffu, ég var einmitt að líta á alla kommóðuna. Ég var að líta á bætur alls staðar frá. Þegar maður lítur á það þá er í fyrsta lagi lánað fyrir börnunum, framfærslu þeirra og húsnæði, síðan er lánað fyrir húsnæði sérstaklega af því að þeir námsmenn sem búa heima hjá sér fá lægri lán. En húsaleigubætur eru líka veittar út á húsnæðið þannig að það er verið að bæta sama hlutinn aftur og aftur. Það leiðir til þess að einstæða móðirin í háskólanum er með 206 þúsund krónur. Ef hún hefur hærri launatekjur þá hefur hún enn þá meiri ráðstöfunartekjur.