Bætt staða námsmanna

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 18:48:41 (1306)

2000-11-02 18:48:41# 126. lþ. 19.16 fundur 189. mál: #A bætt staða námsmanna# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[18:48]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hér bendir hv. þm. Pétur H. Blöndal á hryggilega staðreynd, þá hryggilegu staðreynd að verið er að fækka fólki hjá Samvinnuferðum--Landsýn. Það er ekki vegna þess að launagreiðslurnar hafi verið of háar, heldur vegna þess að ráðist var í framkvæmdir sem ekki stóðu undir væntingum en verða væntanlega til þess að fyrirtækið eflist og getur borgað bærilegri laun.

Mér finnst þetta hálfgerður útúrsnúningur frá því sem hér var til umræðu, um að laun á Íslandi væru of lág. Það er of mikil misskipting á því sviði. Þar eru ýmsir sem taka óþarflega mikið til sín, ekki síst í þeim heimi sem Pétur H. Blöndal, fyrrverandi eigandi Kaupþings, þekkir vel til. Fjármagnseigendur og þeir sem hafa tök á fjármagninu klóra til sín mörgum hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum á mánuði hverjum, ekki aðeins í formi launagreiðslna heldur og arðgreiðslna margvíslegra eða fjármagnstekna. Það ætti að vera sameiginlegt viðfangsefni allra velviljaðra manna í landinu að reyna að draga úr því hróplega misrétti sem hefur aukist á undanförnum árum í skjóli þeirrar ríkisstjórnar sem hér fer með völdin.